Sigríður Ingibjörg Aradóttir fæddist í Stóra-Langadal á Skógarströnd 16. okt. 1917. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 4. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ari Stefánsson, f. 1872, d. 1957 og Kristín Guðmundsdóttir, f. 1874, d. 1944. Systkini Sigríðar voru: Salbjörg Kristín, f. 1900, d. 1978, Sigurður Tryggvi, f. 1904, d. 2007, Jóhanna Stefanía, f. 1906, d. 2003, Guðmundur, f. 1908, d. 1908, Guðný Ingunn, f. 1910, d. 2004, Guðrún Áslaug, f. 1913, d. 1995 og Björg, f. 1915, d. 2005.

Sigríður giftist 11. okt. 1941 Jóni Árna Kristinssyni, f. 29.10. 1914 í Hafnarfirði, d. 17.10. 1984. Foreldrar hans voru Kristinn Friðrik Brandsson, f. 1888, d. 1968, og Ingibjörg Guðrún Árnadóttir, f. 1887, d. 1949.

Börn Sigríðar og Jóns Árna eru: 1) Kristín Ingunn, f. 1943, maki Baldur Sveinsson, f. 1942, börn þeirra eru, a) Sveinn, f. 1962, maki Ma Cheung, f. 1966; sonur Sveins er Baldur Benjamín, f. 1996, móðir hans er fyrrverandi sambýliskona Sveins, Sigríður Bára Traustadóttir, f. 1956, b) Árni Jón, f. 1968, synir hans eru Hlöðver Kristinn, f. 1991, móðir hans er Sólrún Hlöðversdóttir, f. 1962, Óskar Ingimar, f. 1997, móðir hans er Margrét Lísa Óskarsdóttir, f. 1976, c) Sigríður Björk, f. 1980, unnusti Zak Shukor, f. 1970, d) fóstursonur Óskar Ingimar Árnason. 2) Kristinn Friðrik, f. 1944, maki Edda Jóhannsdóttir, f. 1947, börn þeirra eru: a) Guðrún Björk, f. 1966, dóttir hennar er Edda Hilmarsdóttir, f. 1986, faðir hennar er Hilmar Þór Hilmarsson, f. 1960, b) Jóhann Ólafur, f. 1976, sambýliskona Jóhanna Garðarsdóttir, f. 1977, sonur þeirra er Kristinn Kári, f. 2008. 3) Ingibergur Gunnar, f. 1944, maki Júlía Magnúsdóttir, f. 1946, börn þeirra eru: a) Magnús, f. 1966, maki Halldóra Magnúsdóttir, f. 1968, börn þeirra eru Jakob Daníel, f. 1988, Júlía, f. 1990, Lilja Líf, f. 1995, Enok, f. 1997, b) Þráinn, f. 1973, börn hans eru Thelma, f. 1991, móðir hennar er Rósa Björk Jónsdóttir, f. 1967, Benjamín, f. 1995, móðir hans er Rósmarý Ósk Óskarsdóttir, f. 1968, c) Elvar f. 1978, maki Sigríður Margrét Jónsdóttir, f. 1980, synir þeirra eru Benedikt Efraím, f. 1999, Ingibergur Alex, f. 2002. 4) Lilja Björk, f. 1959, maki Lárus Þór Jónsson, f. 1960, börn þeirra eru: a) Jón Kristinn, f. 1986, b) Ólafur Már, f. 1989, c) Sigríður María, f. 1992.

Sigríður og Jón Árni bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði.

Sigríður verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Amma Silla.

Þegar ég hugsa til baka þá sé ég fyrir mér brosmilt andlit þitt,

hlýlegt og glaðlegt.

Þú tókst mér alltaf opnum örmum og varst alltaf tilbúin að gefa mér tíma og sinna mér. Ekki fór nú lítið fyrir mér og uppátækin ýmiss konar en alltaf sýndir þú mér skilning og þolinmæði.

Við áttum oft gott spjall saman og fann ég mig ávallt sem jafningja og góðan vin í þinni návist. Við ræddum um Drottin og tilgang lífsins. Það er mér ógleymanlegt þegar við áttum saman einlæga bænastund og við játuðum saman trú okkar á Drottin.

Þú varst alltaf tilbúin til að gefa af þér og veita þeim sem voru þér næst athygli þína, varst ávallt uppörvandi og hvetjandi.

Það var alveg ljóst að þú elskaðir góðan félagskap. Ég mun alltaf muna eftir gestrisni þinni, hvernig þú tókst á móti fólki og hvernig þú kvaddir og ég vitna í orð þín: „Ó hvað er gaman að sjá ykkur.“ Það var einlægt og það kom beint frá hjartanu.

Það var ávallt til nóg með kaffinu, það var í raun alltaf veisla hjá Ömmu Sillu. Þær voru ófáar stundirnar sem við áttum í eldhúsinu heima á Öldugötu 33, þú bakaðir pönnukökur og við spjölluðum saman.

Þú varst alltaf jákvæð og uppörvandi. Þú sást bara það jákvæða og talaðir um það jákvæða í fari fólks. Þú hvattir mig áfram í því sem ég tók mér fyrir hendur og það var alveg ljóst að það var einlæg ósk þín að mér mætti ganga sem best í lífinu.

Amma, þitt jákvæða viðhorf og umburðalyndi er mér afar dýrmætt og hafði það gríðarleg áhrif á líf mitt. Ég hef tekið þig til fyrirmyndar og ávallt lagt mig fram við gera slíkt hið sama.

Þegar ég kveð þig þá er ég þér afar þakklátur fyrir hversu gefandi þú varst, uppörvandi og hvetjandi. Glaðlegt andlit þitt, lífsgleði þín og góða skapið verður ávallt fast í huga mér.

Amma Silla, takk fyrir góðar minningar, takk fyrir allt, þú varst mér góður vinir, þú varst frábær amma.

Magnús Gunnarsson.

Fögrum kafla er lokið í tilvist góðrar sálar. Kaflinn er fagur því hér var vel lifað og margur fjársjóðurinn skilinn eftir í formi góðra minninga í sinni þeirra er eftir lifa. Hér kom saman mýktin og þrautseigjan, glaðværðin og gæskan, á þann hátt að öllum þótti gott til að þekkja. Lífshlaup hennar var sjálfsagt einkennandi fyrir þá kynslóð sem fæddist snemma á síðustu öld, það er að fæðast í torfbæ og alast upp við leik að legg og skel og flytja svo á mölina, hitta sinn lífsförunaut og með honum sjá börn, barnabörn og barnabarnabörn vaxa úr grasi. Þetta er saga íslensku þjóðarinnar í hnotskurn: vegferðin frá örbirgð til allsnægta á tæpri öld.

Það er erfitt fyrir okkur, sem yngri erum, að gera sér í hugarlund þær miklu breytingar og þá miklu atburði sem þessi kynslóð hefur upplifað. Í heimssögulegu samhengi fæddist hún inn í heimsstyrjöldina fyrri, upplifði heimskreppuna miklu um fermingu og hóf barneignir um miðja heimsstyrjöldina síðari. Barnabörnin komu svo í kalda stríðinu og fyrsta barnabarnabarnið rétt fyrir lok þess.

Þótt lífsbaráttan hafi á stundum verið erfið var það þó ekki á henni að sjá. Hún kunni ekki þá leiðu list að kvarta, hvorki yfir aðstæðum né öðrum. Hún var ætíð góð heim að sækja og eigum við barnabörnin margar góðar minningar á heimili ömmu og afa að Öldugötu 33 í Hafnarfirði. Við rifjum gjarnan upp hversu gott það var að sitja í eldhúsinu og fylgjast með pönnukökubakstri ömmu af áhuga og sporðrenna hverri pönnukökunni af fætur annarri, rjúkandi heitri beint af pönnunni.

Blómagarður hennar var ætíð til mikillar fyrirmyndar, en hún ræktaði ekki aðeins blóm í bókstaflegum skilningi, því allir fengu blóm í hjarta sem henni kynntust.

Gagnvart mér var hún ekki aðeins hjartahlý amma, heldur líka leikfélagi. Hún kunni nefnilega þá list að tefla, og það þótti tíu ára strák ekki amalegt. Oft var þó taflmennskan trufluð af símhringingu, því ekki var hún amma vinafá. Þannig fóru margar skákirnar í bið á meðan símtöl við vini og vandamenn fóru fram.

Nú þegar horft er um öxl er mér efst í huga þakklæti fyrir allar góðu stundirnar, alla hlýjuna og kærleikann og ekki síst fyrir að hafa kynnst hennar óbilandi þrautseigju og léttleika, sem hvetur til dáða þegar lífsins þorra þarf að þreyja.

Viðskilnaðurinn er tímabundinn, eða svo segir mér hugur og hjarta, og hlakka má til endurfundanna þegar þar að kemur.

Minning hennar lifir í hjörtum okkar og ber okkur ljós og yl um ókomin ár.

Sveinn Baldursson.