Þegar Víkverji steig á reiðfák sinn í gær og hjólaði hress út úr húsi leið honum allt í einu eins og hann væri ekki staddur í Reykjavík heldur í einhverri stórborg í þróunarlandi.

Þegar Víkverji steig á reiðfák sinn í gær og hjólaði hress út úr húsi leið honum allt í einu eins og hann væri ekki staddur í Reykjavík heldur í einhverri stórborg í þróunarlandi. Ástæðan var ekki sú að óvanalega mannmargt væri í borginni heldur var það loftið sem Víkverji neyddist til að fylla lungun af sem minnti á stórborgirnar. Mikið ryk var í loftinu og Víkverji, sem annars var tandurhreinn eins og oftast, varð skítugur á 10 mínútna hjólatúr og hóstaði fram eftir degi.

Vindurinn virðist hafa þeytt öllu framkvæmdaryki borgarinnar út um allt og ekki skánar það þegar næstum allir notast við einkabílinn til að komast leiða sinna. Víkverji þráir fátt heitara en öflugri almenningssamgöngur og að fleiri notist við eigin orku til að fara milli staða. Víkverji þekkir það af eigin raun hversu miklu betri hann er til líkamlegu og andlegu heilsunnar þegar hann hjólar eða labbar og óskar sem flestum þess sama.

Víkverja finnst hann alltof oft fá lélega þjónustu, hvort sem er í verslunum eða á veitingastöðum. Stundum er engu líkara en Víkverji sé að trufla fólk þegar hann spyr spurninga eða vill aðstoð við eitthvað tengt rekstri viðkomandi. Víkverji er því alltaf mjög þakklátur þegar hann fær góða þjónustu og það átti við þegar hann skellti sér á nýja mexíkóska veitingastaðinn á Laugaveginum um daginn. Maturinn er ódýr og innréttingar allar hinar notalegustu. Matarskammturinn sem Víkverji fékk var þó í minna lagi og hefði mátt bjarga með örlítið meira af hrísgrjónum en hann fyrirgef það strax enda var þjónustan stórskemmtileg og mikil alúð lögð í allt á staðnum.

Víkverji þreytist seint á að dásama verkfæraverslunina Brynju á Laugaveginum. Víkverja finnst stundum að þar geti hann fengið svör við öllu sem honum dettur í hug og hefur satt best að segja gengið dálítið langt í að leggja undarlegar spurningar fyrir afgreiðslumennina. Þeir taka Víkverja þó alltaf vel og reyna að leiðbeina honum annað ef það á við.