Körfuboltafár Fátt annað kemst að í Stykkishólmi þessa dagana en körfubolti. Iðkendur íþróttarinnar eru margir og framtíðin tryggð.
Körfuboltafár Fátt annað kemst að í Stykkishólmi þessa dagana en körfubolti. Iðkendur íþróttarinnar eru margir og framtíðin tryggð. — Ljósmynd/Gunnlaugur Árnason
„STEMNINGIN í bænum er náttúrlega ekkert nema frábær,“ segir Katrín Pálsdóttir, formaður æskulýðs- og íþróttanefndar Stykkishólmsbæjar, en á mánudagskvöld komst körfuknattleikslið bæjarsins, Snæfell, í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik.

„STEMNINGIN í bænum er náttúrlega ekkert nema frábær,“ segir Katrín Pálsdóttir, formaður æskulýðs- og íþróttanefndar Stykkishólmsbæjar, en á mánudagskvöld komst körfuknattleikslið bæjarsins, Snæfell, í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik. Er það í þriðja skipti í sögu félagsins.

Þegar Morgunblaðið ræddi við Katrínu var hún enn hálfraddlaus eftir sigur liðsins í undanúrslitum gegn Grindavík, og sagði eins farið með flesta bæjarbúa. „Leikirnir eru afskaplega vel sóttir og hér standa allir með sínum mönnum. Það hefur heldur ekki verið rætt um annað en körfubolta og hvað þeir voru einstaklega seigir að ná þessu upp í restina,“ segir Katrín en Snæfell var nítján stigum undir í upphafi fjórða leikhluta. Með góðum leik tryggði liðið sér hins vegar framlengingu og vann í henni sigur.

Vellirnir þétt setnir

Snæfell hefur tvívegis áður komist í úrslit Íslandsmótsins, árin 2004 og 2005, en í bæði skiptin tapað fyrir Keflvíkingum. Katrín segir ljóst að í ár verði breyting á. „Nú kemur þetta og þrennan verður tekin.“ Snæfell hefur þegar unnið Lýsingarbikarinn og Poweradebikarinn.

Rúmlega 1.100 manns búa í Stykkishólmi sem hefur löngum verið þekktur sem körfuknattleiksbær. Katrín segir gríðarlegan fjölda barna í bænum leggja stund á íþróttina og körfuknattleiksvellir séu oftast nær þétt setnir. Auk þess sæki nánast öll börn leiki Snæfellinga. Hún segir ljóst að „Hólmarar“ muni styðja sína menn dyggilega í úrslitunum og öruggt að fjölmennt verði í hópferðum á útileikina.