Sveinlaug Júlíusdóttir fæddist í Reykjavík 26. júní 1950. Hún lést á Landakotsspítala fimmtudaginn 10. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þuríður Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. 9. maí 1917, d. 17. október 1985, og Júlíus Guðmundsson, efnafræðingur, f. 26. september 1922. Bróðir Sveinlaugar er Guðmundur Júlíus, f. 26. október 1959.

Sveinlaug giftist 3. janúar 1976 Gylfa Hinriki Ásgeirssyni, f. á Valshamri á Skógarströnd 6. júlí 1941.

Foreldrar hans voru Ásgeir H. Jónsson hreppsstjóri, f. 25. apríl 1896, d. 21. febrúar 1985, og Áslaug Guðmundsdóttir, f. 21. maí 1901, d. 6. júní 1996.

Sveinlaug og Gylfi bjuggu fyrst að Barónsstíg 43 í Reykjavík en 1978 fluttu þau að Vallargerði 36 í Kópavogi. Sveinlaug var oft og lengi á spítölum vegna vanheilsu og síðustu 3 árin dvaldist hún á Landakotsspítala.

Sveinlaug verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Sveinlaug Júlíusdóttir

Mágkona mín, Sveinlaug, kvaddi þessa jarðvist aðfaranótt 10. apríl eftir löng og ströng veikindi í mörg ár. Alltaf var hún samt glöð þegar maður heimsótti hana á spítalann. Hún reyndi oftast að leyna því hvað hún var þjáð – og sama Pollyönnu-hugsunin hjá henni: „Þetta gæti verið verra,“ en sjúkdómurinn sigraði hana að lokum. Jákvæðni og hið glaða skapferli hennar hjálpaði henni í baráttunni.

Ég minnist okkar fyrstu kynna, fyrir um það bil 35 árum, þegar Gylfi bróðir sagðist koma með vinkonu sína í heimsókn eitt kvöldið. Þegar ég opnaði dyrnar stóð fyrir framan mig falleg, hávaxin og grönn stúlka, með sítt svart hár. Hún heilsaði mér brosandi eins og hún þekkti mig þá þegar. Enda varð það svo að með okkur tókst mjög góð vinátta sem stóð alla tíð síðan.

Eftir að þau giftu sig, bjuggu þau á Barónstígnum; var samgangur milli heimilanna tíður.

Þegar Gylfi var að vinna kvöldvaktir fannst henni ekkert mál að skokka yfir Miklatúnið og upp í Grænuhlíð til okkar, og var hún alltaf aufúsugestur með sitt glaða skap. Þá var oftast að unglingarnir á heimilinu settust með henni að taka í spil eða tefla skák. Það fannst þeim svo gaman og tóku af henni loforð að koma sem fyrst aftur, því þau vildu ekki gefast upp fyrr en þau næðu að vinna hana í skákinni.

Það varð lengra á milli okkar þegar þau fluttu í Kópavoginn. Árin liðu og það fór að bera á veikindum hennar, hún dvaldi langdvölum á sjúkrahúsum. Lungun gáfu sig og hún varð bundin súrefnisgjöf á hverjum degi. Mikið varð hún glöð að fá loks rafknúna hjólastólinn, því þá varð auðveldara að komast leiðar sinnar.

Innilegar þakkir til hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks á K1, Landakotsspítala, þar sem hún dvaldi síðustu árin, fyrir frábæra umönnun og kærleiksríkt viðmót.

Guð geymi þig, elsku Sveina mín, þakka þér allar stundirnar sem við áttum saman.

Bróður mínum, föður hennar og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.

Ása.