HÆTTA er á að fjölmargir bandarískir námsmenn muni lenda í erfiðleikum með afborganir af námslánum sínum á þessu ári.

HÆTTA er á að fjölmargir bandarískir námsmenn muni lenda í erfiðleikum með afborganir af námslánum sínum á þessu ári. Þetta kemur fram í frétt í breska viðskiptablaðinu Financial Times (FT) en þar segir að námslánin séu nýjustu lánin sem orðið hafi fyrir barðinu á lánakreppunni sem nú ríður yfir heiminn.

Í fréttinni segir að reiknað sé með því að námslánakreppan muni leiða til þess að a.m.k. 100 þúsund bandarískir námsmenn, eða um 2-3,5% af heildarfjölda þeirra, muni ekki eiga möguleika á að fá námslán í ár.

Láglaunafólk verst sett

Fram kemur í frétt FT að sífellt fleiri lánafyrirtæki, sem hafi boðið upp á námslán í Bandaríkjunum, hafi verið að draga sig út af þeim markaði. Þannig hafi fyrirtæki sem hafi verið með um 13% af þessum lánamakaði og veitt um 800 þúsund námsmönnum lán á árinu 2006 hætt veitingu námslána. Þá er haft eftir fulltrúa samtaka lánastofnana sem veita námslán, American Securitization Forum, að stór hluti af þeim lánafyrirtækjum sem ekki hafa nú þegar dregið sig út af þessum markaði muni gera það innan tíðar.

Í fréttinni kemur fram að ætla megi að samdrátturinn á námslánamarkaðinum muni bitna verst á þeim sem séu með lægstu launin og minnstu lánagetuna. Þar hafi kreppan á húsnæðislánamarkaðinum mikil áhrif.