Ævarr Hjartararson
Ævarr Hjartararson
Ævarr Hjartarson skrifar um sinubruna: "Sinubruni hefur lengi tíðkast á vorin en er í besta falli gagnslaus. Hætta er á gífurlegu tjóni í skóglendum. Sinubrennu ætti alfarið að banna með lögum."

NÚ FER í hönd sá tími sem framin eru flest hryðjuverk gegn landinu í formi sinubruna. Er slík aðgerð réttlætanleg? Sinubruni í besta falli gagnslaus. Sinubrennsla hefur verið stunduð lengi með misjöfnum árangri. ,,Í Majo vildi bóndinn á Langholti í Flóa, Hallur Jónsson að nafni, brenna sinu af þeirri jörð, og sem hann lagði eldinn í, læsti hann sig víðara út á annarra manna jarðir, svo hann brenndi lönd á næstu 13 jörðum.“ Eftir þetta drekkti hann sér. Sjávarborgarannáll. Þegar sina er brennd myndast mikill hiti þannig að ljóst er að mikil orka hverfur út í buskann auk þess sem reykurinn getur valdið skaða og óþægindum þeim sem ekki ganga heilir hvað varðar heilsu í öndunarfærum. Talið var að orkan sem losnaði í brunanum á Mýrunum árið 2006 hafi numið 200 MW þegar mest var. Auk þess er reykjarlyktin sterk og getur setið lengi í lofti og sem lykt af fötum. Talið var að þar hafi brunnið um 100 km 2 af landi. Þingvallavatn er rúmir 80 km 2 . Sinueldarnir á Mýrum eru líklega þeir mestu í Íslandssögunni. Eldarnir fóru yfir um tvöfalt stærra svæði en byggt er í Reykjavík. Hér er einnig um mikla loftmengun að ræða og mikið kolefni fer út í andrúmsloftið. En það er hlutur sem skoða verður vandlega vegna hlýnunar jarðar.

Sinubruna ætti því að banna alfarið. Skaðsemi sinubruna er alvarleg loftmengun, auk þess að bæta lítið landgæði.

Sé litið á búskaparhætti eins og þeir eru í dag hefur landnotkun tekið miklum breytingum á liðnum áratugum. Búin verða sérhæfðari, þ.e. eingöngu eða að mestum hluta með „hreinan“ bústofn nautgripa, sauðfjár eða hrossa og sauðfjár saman. Beitarnýting er því orðin allt önnur en var.

Sé land þurrt þegar brennt er geta þúfur og börð brunnið og opnað sár er leiða til uppblásturs á viðkvæmum svæðum. Aukinn uppblástur er ekki það sem við þurfum í dag en í varnir gegn uppblæstri er varið talsverðum fjármunum til Landgræðslu ríkisins. Ég efast stórlega um að Landgræðslan vilji sjá bruna í löndum sínum. ,,Sinubruni um vorið og brunnu löndin víða mjög til skemmda og skaða, skógar og hrifhrís, því það bar svo við, eldurinn varð óvíða stilltur“. Skarðsannáll.

Á seinni árum hafa landeigendur verið hvattir til skógræktar og hafa margir þeirra snúið sér í miklum mæli að slíkri landnotkun. Veitt er fjárframlag til þeirrar ræktunar í formi styrkja til plöntukaupa, gerð vegslóða, girðinga, skipulagningar lands og e.t.v. fleira. Þessi stuðningur hefur stuðlað að mikilli gróðursetningu trjáplantna á liðnum árum.

Þegar kveikt er í sinu verður ekki séð með vissu hvaða land brennur. Vindátt getur breyst og eldur leitað til annarra átta en í upphafi var ætlað. Oft verður lítt við ráðið hvert eldurinn fer og aðgerðir til slökkvistarfs erfiðar bæði hvað varðar vatnssöfnun og aðkomu þannig að lítt verður við ráðið (samanber brunann á Mýrunum). Ég ætla engum að brenna land nágrannans viljandi en oft verður því ekki forðað ef af stað er farið. „Eldurinn hljóp í skóginn. Brann sá skógur fyrst allur, er Ölkofri átti, en síðan hljóp eldur í þá skóga, er þar voru næstir, og brunnu skógar víða um hraunið. Er þar nú kallað á Sviðningi“ (Ölkofra saga).

Með friðun lands og plöntun á skógi getur orðið mikil sinumyndun en bruni á slíku landi hefur mikið tjón í för og margra ára starf fer þar fyrir lítið. Ætla má að kostnaður á ha lands í bændaskógrækt sé um kr. 200.000. Af því eru framlög í ýmsum myndum um 95%.

Það eina „jákvæða“ við sinubruna er að landið fær fallegan grænan lit ef brennt er á góðum tíma og er að einhverju aðgengilegra fyrir beitarpening, annað jákvætt verður vart sagt um þessa aðgerð og vildi ég sjá að alfarið yrði bannað að brenna sinu. Eg veit ekki hvort uppskera verður nokkuð meiri þó brennt sé. Sveitarfélög hafa ályktað gegn sinubruna, samanber tillögu Eyjafjarðarsveitar: „Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar vill að gefnu tilefni lýsa því yfir að hún telur sinubrennur í þéttri byggð eins og víða er í sveitarfélaginu og næsta nágrenni þess engan veginn ásættanlegar. Hún telur að slíkar brennur brjóti í raun alltaf gegn ákvæðum laga nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, sbr. 2. gr. þeirra laga sbr. einnig ákvæði í reglugerð við þau lög þar sem m. a. segir að aldrei megi brenna sinu þar sem almannahætta stafar af.“ Bruna á sinu á að banna undantekningalaust og vona eg að landbúnaðarráðherra komi slíku banni á með nýrri lagasetningu hið fyrsta og helst á þessu ári.

Það væri fróðlegt að sjá skoðanir manna á þessu máli.

Höfundur er fyrrverandi ráðunautur í Eyjafirði.