Skömm að lýsingu MÉR varð ekki um sel kvöldið 14. apríl þegar ég hlustaði á lýsingu frá körfuboltaleik Snæfells og Grindavíkur. Sá sem lýsti leiknum á Stöð 2 lagði þar nánast í einelti erlendan leikmann Grindavíkur, sem stóð sig vel í leiknum.

Skömm að lýsingu

MÉR varð ekki um sel kvöldið 14. apríl þegar ég hlustaði á lýsingu frá körfuboltaleik Snæfells og Grindavíkur. Sá sem lýsti leiknum á Stöð 2 lagði þar nánast í einelti erlendan leikmann Grindavíkur, sem stóð sig vel í leiknum. Hann kallaði leikmanninn „hlunkinn“ í hvert skipti sem hann fékk boltann.

Ég spyr; hvurslags smekkleysi er þetta að gera grín að leikmanni vegna holdafars hans (sem mér sýndist alls ekkert hlunkslegra en lýsandinn sjálfur)?

Bóta er þörf hjá Stöð 2 ef þetta er það sem koma skal.

Árni Heiðar Grímsson

Stefnumót

MIG langar að þakka fyrir afar skemmtilegan þátt fyrir hönd nokkurra vinkvenna. Þátturinn var í útvarpinu 10. mars sl. og höfðum við allar svo gaman af honum. Þar var þáttastjórnandinn Svanhildur Jakobsdóttir í þættinum Stefnumót en þar tók hún viðtal við Sigríði Hannesdóttur leikkonu. Þær rifjuðu upp gamla tíma þegar Sigríður var að byrja ferilinn sinn og Svanhildur skilaði þessu svo meiriháttar vel. Mig langaði bara að benda á hvað þetta var afburðagóður þáttur og það væri gaman að fá hann endurtekinn.

Saumaklúbburinn minn hefur mikið dálæti á þessum þáttum.

Saumaklúbbskona

Tiltekt fyrir alla

MIG langaði að koma á framfæri þeim skilaboðum, að við berum öll ábyrgð á umhverfi okkar. Við ættum að taka saman höndum og vera dugleg að tína upp eftir okkur ruslið.

Málfríður Kristjánsdóttir

Mannaveiðar

SJÓNVARPSÞÁTTURINN Mannaveiðar er mjög góður, en mér finnst þættirnir vera gjöreyðilagðir í flutningi. Því í ósköpunum voru ekki fengnir alvöru leikarar í hlutverkin í þessum annars fína þætti?

Margrét Ásgeirsdóttir


Svarað í síma 5691100 frá 10-12 og 13-15 | velvakandi@mbl.is