Ekki bjart Verr horfir nú fyrir versluninni á Bretlandi en áður. Verslanakeðjur hafa verið að skila uppgjörum sem valda vonbrigðum.
Ekki bjart Verr horfir nú fyrir versluninni á Bretlandi en áður. Verslanakeðjur hafa verið að skila uppgjörum sem valda vonbrigðum. — Reuters
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is SMÁSÖLUVERSLUN á Bretlandseyjum á undir högg að sækja um þessar mundir. Þetta hefur komið sterklega fram í þessari viku þegar neikvæðar fréttir bárust af þremur verslanakeðjum.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

SMÁSÖLUVERSLUN á Bretlandseyjum á undir högg að sækja um þessar mundir. Þetta hefur komið sterklega fram í þessari viku þegar neikvæðar fréttir bárust af þremur verslanakeðjum. Ein þeirra greindi frá umtalsverðri minnkun hagnaðar milli ára. Önnur keðja er sögð vera til sölu. Og þriðja keðjan hefur fengið greiðslustöðvun vegna rekstrarerfiðleika. Frá þessu er greint í frétt á fréttavef Guardian .

Minni hagnaður Debenhams

Hagnaður Debenhams-verslanakeðjunnar, sem Baugur á 13,5% hlut í, var 12% minni á sex mánaða tímabili frá byrjun október á síðasta ári til loka mars í ár, í samanburði við sama tímabil árið áður. Hagnaðurinn fyrir skatta nam um 92 milljónum punda á tímabilinu, eða um 13,5 milljörðum króna. Salan hjá keðjunni jókst lítillega, vegna fjölgunar verslana, en minnkaði hins vegar um 0,7% þegar sami fjöldi verslana er lagður til grundvallar.

Gengi hlutabréfa Debenhams á markaði í London hefur nánast stöðugt lækkað frá því félagið var skráð fyrir tveimur árum. Þá var gengið um 195 pens er er nú innan við 60.

Í fétt á fréttavef Financial Times segir að stjórnendur Debenhams séu með í undirbúningi að freista þess að bæta reksturinn með því að draga úr eins milljarðs punda skuldum keðjunnar, sem svarar til hátt í 150 milljarða íslenskra króna. Er haft eftir forstjóranum, Rob Templeman, að áætlanir séu uppi um að minnka skuldirnar um allt að 140 milljónir punda á þessu ári, eða um liðlega 20 milljarða króna. Segir hann þetta nauðsynlegt til að auka tiltrú fjárfesta á keðjunni á ný.

Baugur að selja MK One

Í frétt Guardian segir að Baugur, sem á meirihluta í fataverslanakeðjunni MK One, ætli að selja keðjuna. Segir í fréttinni að salan sé eðlileg með tilliti til þess að Baugur hafi í byrjun þessa mánaðar tilkynnt að félagið ætlaði að einbeita sér að fjárfestingum í smásölu.

Þriðja verslanakeðjan sem Guardian nefnir til vitnis um þá erfiðleika sem nú séu í smásöluverslun á Bretlandi er lágvörurverðstískukeðjan Ethel Austin, sem fór fram á greiðslustöðvun í þessari viku. Er haft eftir opinberum umsjónarmanni að vonir standi til að kaupandi að keðjunni finnist fljótlega. Hundruð starfsmanna geti þó misst vinnuna.

Til viðbótar við erfiðleika framangreindra keðja var í gær greint frá því að breska íþróttavöruverslanakeðjan JJB Sports, sem Exista á hlut í, hefði boðað að 72 verslunum keðjunnar á Bretlandi af 410 yrði lokað. Hagnaður keðjunnar á síðasta rekstrarári, sem lauk í janúar, dróst saman um 28,5% frá fyrra ári.

Í hnotskurn
» Hagnaður Debenhams dróst saman um 12% á milli ára.
» MK One skilaði 17,4 milljóna punda tapi á síðasta ári.
» Talið er að hundruð starfsmanna Ethel Austin-keðjunnar muni missa vinnuna vegna rekstrarerfiðleika.
» Hagnaður JJB Sports dróst saman um 28,5% í fyrra.