Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að minni hreyfing en nú er mælt með geti gegnt mikilvægu hlutverki í betrumbættri heilsu landsmanna. Í rannsókninni voru þátttakendur látnir ganga rösklega í 30 mínútur, 3 sinnum í viku í 12 vikur.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að minni hreyfing en nú er mælt með geti gegnt mikilvægu hlutverki í betrumbættri heilsu landsmanna. Í rannsókninni voru þátttakendur látnir ganga rösklega í 30 mínútur, 3 sinnum í viku í 12 vikur. Við þetta lækkaði blóðþrýstingur og almenn vellíðan jókst hjá þátttakendum sem voru kyrrsetufólk á aldrinum 41-60 ára.

Til þess að ná fram hámarks heilsueflingu er mælt með því að fullorðnir stundi miðlungs erfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Rannsóknin sem gerð var við Háskólann í Ulster á Norður-Írlandi var sett upp með það að markmiði að kanna hvort minni hreyfing en ráðlögð er skipti máli þegar kemur að heilsu hjarta- og æðakerfis og almennri vellíðan.

Eftir 12 vikur höfðu 106 þátttakendur á aldrinum 41-60 ára gengið í 30 mínútur þrisvar í viku eða 5 sinnum í viku. Til samanburðar var hópur sem hélt kyrrsetunni áfram. Hjá þátttakendum í báðum hópunum sem fóru í 30 mínútna göngur var marktæk lækkun bæði á blóðþrýstingi og hlutfalli mittis og mjaðma (mittismáli) samanborið við þá sem hreyfðu sig ekki.

Niðurstöðurnar hafa vakið töluverða athygli því hár blóðþrýstingur og mittismál (fituhlutfall) eru áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.

Niðurstöðurnar ýta enn frekar undir þá staðreynd að hreyfing er okkur lífsnauðsynleg og ættu þær að vera fólki, sem ekki telur sig hafa tíma til að hreyfa sig daglega, mikil hvatning.

Höfundur er íþróttakennari, næringarfræðingur og deildarstjóri einkaþjálfunar hjá Hreyfingu heilsulind