Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson fjallar um málefni innflytjenda: "Fjallað er um afbrot, innflytjendur og staðalmyndir. Fremja innflytjendur fleiri glæpi en aðrir? Hvaða mynd er dregin af innflytjendum í fjölmiðlum?"

INNFLYTJENDUM hefur fjölgað mjög á Íslandi í kjölfar EES og ásóknar vinnuveitenda í erlent vinnuafl sem ýtt hefur undir góðærið hjá okkur á síðustu misserum. Margir hafa áhyggjur af því að vaxandi straumur útlendinga muni fyrr eða síðar leiða til aukinna afbrota og að samfélagið breytist til hins verra. Fremja innflytjendur fleiri glæpi en Íslendingar? Hvað segja rannsóknir um tengsl innflytjenda og afbrota? Er útlendingum mismunað í fjölmiðlaumræðunni? Leitast verður við að svara þessum spurningum og fleirum á ráðstefnu um fjölmiðla, innflytjendur og afbrot föstudaginn 18. apríl í Salnum, Kópavogi kl. 13.

Afbrot og minnihlutahópar

Hver er reynsla vestrænna þjóða? Minnihlutahópar, hvort sem er eftir þjóðerni eða kynþætti, eru víðast hvar handteknir, dæmdir og fangelsaðir í ríkari mæli en aðrir fyrir ofbeldi, auðgunarbrot og fíkniefnabrot. Þetta er þó ekki algilt og hefur ekki komið fram með sama hætti hér á landi. Indverskir og pakistanskir innflytjendur í Englandi eru einnig með lægri tíðni glæpa en þekkist meðal annarra íbúa landsins. Sömuleiðis eru íbúar af asískum uppruna með lægri tíðni en aðrir í Bandaríkjunum - sambandið er því ekki náttúrulögmál.

Rannsóknir erlendis hafa sýnt að minnihlutahópar hljóta að jafnaði þyngri dóma en aðrir fyrir sams konar brot. Margvísleg réttarfarsúrræði til að draga úr þyngd dóma hafa heldur ekki verið nýtt á sama hátt í málum innflytjenda og gerist með aðra í samfélaginu. Ýmsar vísbendingar sýna að fyrsta kynslóð innflytjenda hefur stundum ekki hærri tíðni glæpa en aðrir en áhættan vex með annarri kynslóðinni. Hvers vegna er þróunin svona óhagstæð innflytjendum?

Brýnt er að hafa í huga að lítill eðlismunur er á afbrotum innflytjenda og annarra. Lykilatriði er hvernig einstaklingurinn tengist samfélaginu og hvernig samfélagið tengist einstaklingnum. Ef tengslin eru veik og lausbeisluð eykst hætta á frávikum og afbrotahegðan – um þetta vitnar fjöldi rannsókna. Ef einstaklingurinn finnur ekki traust skjól í stofnunum samfélagsins, fjölskyldu, skóla, frístundum eða vinnumarkaði og samfélagið nær ekki að tengja hann inn í faðm sinn erum við um leið að plægja jarðveginn fyrir vanda af ýmsu tagi m.a. afbrot. Minnihlutahópar innflytjenda og kynþátta með háa tíðni glæpa og fangelsana á Vesturlöndum eru að jafnaði lakar tengdir samfélaginu en aðrir – ekki síst ólöglegir innflytjendur. Ábyrgð á tengslaleysi á ekki bara við um innflytjendur heldur ekki síður okkur sjálf og stofnanir samfélagsins.

Fordómar í garð innflytjenda?

Athyglisvert er að rannsóknir sem styðjast við aðrar aðferðir en opinber gögn sýna oft aðra mynd en þá að minnihlutahópar brjóti í ríkari mæli af sér en aðrir. Þegar borgararnir eru spurðir út í eigin afbrotahegðun, þ.e. hvort þeir hafi brotið eitthvað af sér á tilteknu tímabili, á munurinn til að hverfa milli innflytjenda og annarra. Óneitanlega vakna því spurningar um mismunun og stimplun sem innflytjendur verða fyrir sem ýti undir opinber afskipti. Nýjar rannsóknir frá Danmörku sýna að innflytjendur eru í ríkari mæli handteknir en aðrir en þegar útkoma mála þeirra fyrir dómstólum er skoðuð snýst dæmið við. Þegar til kastanna kemur eru mál þeirra ekki eins alvarleg og leit út fyrir í fyrstu. Viðbrögð löggæsluaðila eru því oft ekki í samræmi við ætluð brot þeirra. Ýtir framsetning fjölmiðla um afbrot þar sem innflytjendur koma við sögu undir fordóma í garð þeirra sem ná einnig til löggæslunnar? Er nauðsynlegt að tiltaka ríkisfang í fyrirsögnum frétta?

Opinber stefnumótun

Stefnumótun í málefnum innflytjenda verður að taka tillit til þess að fólk sem hingað kemur hefur mismunandi bakgrunn og tilgang með búsetu sinni hérlendis. Margir eru í tímabundinni vinnu og aðrir vilja setjast að til langframa. Rétt eins og Íslendingar í útrás sinni og búsetu erlendis. Nauðsynlegt er að forðast alhæfingar og staðalmyndir um minnihlutahópa og kynþætti og hlutverk fjölmiðla er afar mikilvægt í þeirri umræðu. Undantekningar eru fjölmargar og einstaklingar ólíkir innan hópa. Reynsla annarra þjóða á hiklaust að vera vegvísir okkar Íslendinga í framtíðinni, í samfélagi sem örugglega verður menningarlega fjölbreyttara og auðugra en það samfélag sem við búum við í dag. Innflytjendur eru mannauður fyrir Ísland en ekki byrði. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og aðstandendur hennar er að finna á heimasíðu Alþjóðahúss, www.ahus.is.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Höf.: Helgi Gunnlaugsson fjallar um málefni innflytjenda