Eftir Andrés Inga Jónsson andresingi@24stundir.is Ísland gæti orðið fastur áfangastaður sælkeraferðalanga, sem eru sérhæfður en ört vaxandi hópur. Soffía M.

Eftir Andrés Inga Jónsson

andresingi@24stundir.is

Ísland gæti orðið fastur áfangastaður sælkeraferðalanga, sem eru sérhæfður en ört vaxandi hópur. Soffía M. Gústafsdóttir, verkefnisstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, kynnir á laugardag verkefnið Vestfirskar sælkeraslóðir, sem myndi skapa grundvöll fyrir matartengda ferðamennsku á Vestfjörðum.

„Við eigum að nýta okkur ímynd Íslands sem hreins og fagurs lands og tengja þá ímynd við matvælaframleiðslu. Það eru gífurleg auðæfi og möguleikar í að tengja það við ferðaþjónustu,“ segir Soffía. Hún er einn frummælenda á málþingi um matartengda ferðaþjónustu sem haldið verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Féll fyrir Vestfjörðum

Soffía er sjálf tiltölulega nýflutt vestur. „Ég flutti hingað fyrir tveimur árum og hafði aldrei komið á Vestfirði áður. Ég féll algjörlega fyrir svæðinu.“

Á þeim tíma sem liðinn er síðan hefur Soffía unnið að því að boða fagnaðarerindið um þá möguleika sem búa í Vestfjörðum, sem hún lýsir sem best geymda leyndarmáli landsins.

„Verkefnið á að byrja á því að kortleggja það sem þegar er fyrir hendi. Allt hráefnið fyrir góða vöru er fyrir hendi á Vestfjörðum – og í raun landinu öllu. Það sem ég vil undirstrika er þessi kraftur sem er í náttúrunni, fólkinu og hráefninu.“

Heildarpakki fyrir matgæðinga

Soffía sér fyrir sér að matarferðamennska geti verið mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem fyrir er á Vestfjörðum. „Ég vil sjá að í staðinn fyrir að flytja hráefnið nánast óunnið í burt eins og verið hefur sé gengið skrefinu lengra og það nýtt á svæðinu. Ferðamaðurinn gæti til dæmis eytt deginum í sjóstangaveiði, farið í land með fiskinn og fengi hann eldaðan á veitingahúsi. Það er þessi blanda af kraftinum í náttúrunni og hráefninu.“

„Með því að halda ímynd Vestfjarða framandi í hugum ferðamanna stílum við inn á ákveðinn markhóp. Við þurfum ekki að reyna að grípa alla.

Ég hef fulla trú á að sé áhugi fyrir þessu á svæðinu. Hugmyndin er tilbúin og nú þarf bara að setja Vestfirskar sælkeraslóðir í gang og framkvæma. Þetta hefur gríðarlega möguleika, og nú er bara að vona stjórnvöld og aðrir sýni verkefninu skilning og veiti því fjármagn.“

Í hnotskurn
Undir merki Vestfirskra sælkeraslóða væri hægt að markaðssetja afurðir smærri sem stærri framleiðenda á markvissan hátt. Komið væri á fót öflugri heimasíðu, þar sem hægt væri að sjá hvaða góðgæti landshlutinn hefur upp á að bjóða. Framleiðendum verður hjálpað við þróun vöru sinnar.