ALEXANDER Petersson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik í gærkvöld þegar Flensburg komst í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar.

ALEXANDER Petersson, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik í gærkvöld þegar Flensburg komst í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Alexander skoraði 10 mörk þegar Flensburg lagði Wetzlar á útivelli, 38:29, og með því náði liðið eins stigs forskoti á Kiel sem gerði jafntefli við Hamburg á sama tíma, 36:36.

Alexander gerði tvö fyrstu mörk Flensburg í leiknum og skoraði fimm í hvorum hálfleik. Einar Hólmgeirsson kom lítið við sögu hjá Flensburg og skoraði ekki.

*Kiel fór illa að ráði sínu í Hamborg og missti þar niður þriggja marka forskot á lokamínútunum. Hans Lindberg, íslenski Daninn í liði Hamborgar, skoraði þrjú mörk í röð á lokakaflanum og var markahæstur hjá liðinu með 7 mörk. Filip Jicha gerði 10 mörk fyrir Kiel.

Þegar fimm umferðum er ólokið er Flensburg með 50 stig á toppnum, Kiel er með 49 stig og Hamburg er í þriðja sætinu með 47 stig. Kiel á einn leik til góða á hina tvo keppinautana.

*Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 5 mörk fyrir Gummersbach og Róbert Gunnarsson 3 þegar lið þeirra tapaði fyrir Nordhorn á útivelli, 34:31. Sverre Jakobsson skoraði ekki fyrir Gummersbach sem seig niður um eitt sæti, niður í það sjöunda.

*Logi Geirsson skoraði 5 mörk fyrir Lemgo, 3 þeirra úr vítaköstum, þegar lið hans burstaði Essen, 37:23, og komst upp fyrir Gummersbach og í sjötta sætið.

*Einar Örn Jónsson skoraði 3 mörk fyrir Minden sem tapaði fyrir Melsungen á útivelli, 33:31.

*Jaliesky Garcia skoraði 5 mörk fyrir Göppingen og Gylfi Gylfason 4 mörk fyrir Wilhelmshavener en Göppingen vann öruggan sigur í leik liðanna, 30:23.

*Þórir Ólafsson og Birkir Ívar Guðmundsson léku ekki með N-Lübbecke sem tapaði naumlega fyrir Magdeburg á heimavelli, 24:25.