— Ljósmynd/Sveinn Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

TILLÖGUR mótorhjólamanna um að skipulagt verði slóðanet fyrir torfæruhjól sem nái til allra landshluta og að réttur þeirra til að aka, í ákveðnum tilvikum, eftir einstigi, er algjörlega hafnað af forsvarsmanni Fuglaverndar, forstöðumaður Náttúrustofu Reykjaness er þeim andvígur og framkvæmdastjóri Landverndar telur þær ganga of langt. Meðal þess sem þeir benda á er að akstur torfæruhjóla fari illa eða alls ekki saman við aðra útivist, aksturinn valdi gróðurskemmdum og trufli og spilli fuglavarpi.

Spilla fyrir fuglalífi í fjörum

Afstaða Einars Ólafs Þorleifssonar, náttúrufræðings og starfsmanns Fuglaverndar, er skýr og skorinorð – mótorhjól eigi einfaldlega heima á vegum og á sérstökum leiksvæðum fyrir torfæruhjól en hvergi annars staðar. „Þau eiga ekki að vera úti um hvippinn og hvappinn,“ segir hann. Torfæruhjólamenn hafi sömu heimildir til aksturs og bílstjórar og alls engin ástæða sé til að rýmka heimildirnar fyrir torfæruhjól. Þess í stað eigi að auka eftirlit með hjólamönnum og ganga eftir því að þeir virði lög og reglur. Einar hyggur að þetta sé skoðun flestra annarra en þeirra sem aka torfæruhjólum.

Einar segir að Fuglavernd hafi m.a. áhyggjur af óleyfilegum akstri mótorhjólamanna um sandana á Suðurlandi, m.a. á Skógasandi. Þar liggi engir vegir en hjólamenn fari þar engu að síður um. Í fjörum Suðurlands og upp af þeim sé fjölbreytt fuglalíf og hávær umferð torfæruhjóla geti spillt mikið fyrir því, fuglar geti hætt að verpa á söndunum eða yfirgefið hreiður sín vegna truflunarinnar. Þar að auki passi mótorhjól og mótorhjólaumferð illa og raunar alls ekki við aðra útivist.

Hefur lítið upp á sig að hringja í lögreglu

Fyrrnefndar tillögur koma fram í stöðumatsskýrslu sem skilað var til umhverfisráðherra og um þær var fjallað í Morgunblaðinu á mánudag. Þar kom m.a. fram að hjólamenn telja Sandvík á Reykjanesi tilvalið svæði fyrir torfæruakstur.

Þessu er Sveinn Kári Valdimarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Reykjaness, algjörlega ósammála. Hann segir Sandvíkina frábært útivistarsvæði en eftir að meira fór að bera á torfæruhjólamönnum í víkinni hefði dregið úr aðsókn annarra hópa sem hefðu flúið hávaðann og fyrirganginn í mótorhjólamönnum. „Þeir eru þarna næstum daglega. Ég fór þarna í gær [fyrradag] og þá voru menn að leika sér þar,“ segir Sveinn. Aksturinn sé ólöglegur en hann hafi þó ekki hringt í lögreglu. „Það hefur í sjálfu sér lítið upp á sig. Þeir stinga af um leið og þeir sjá lögguna og það er erfitt fyrir hana að ná þeim,“ segir hann. Lögreglan fari þó reglulega í eftirlitsferðir.

Sveinn bendir á að gróðurinn í Sandvík haldi sandinum saman og myndi hólana sem víkin sé þekkt fyrir. Akstur mótorhjólamanna valdi skemmdum á gróðri og hverfi hann fjúki sandurinn óheftur í burtu, ýmist á haf út eða upp í land. Af viðræðum við mótorhjólamenn í Sandvík hafi komið í ljós að þeir sæki í víkina af því að það sé skemmtilegra að aka um hana, þvers og kruss, heldur en á skipulögðum svæðum. Yrði Sandvík skipulögð sem aksturssvæði yrði að afmarka þar brautir en þá væri hætt við að hún yrði ekki eins spennandi kostur.

Hávaðinn í mótorhjólunum er mörgum þyrnir í augum og það á við um Svein sem segir að persónulega sé honum verst við hann. Hjólamenn hafi bent á að þeir borgi mikla skatta af hjólunum og eigi skilið að fá aðstöðu líkt og hestamenn og golfarar. „En ég fullyrði að ef hávaði frá hestamönnum væri helmingurinn á við það sem kemur frá hjólamönnum þá væri hestamennska hvergi leyfð nálægt þéttbýli,“ segir hann.

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, sagði margt gott í skýrslunni. „En tillögurnar ganga ansi langt enda náðist engin samstaða um þær,“ sagði hann. „Ég er hræddur um að þær slóðaheimildir sem menn hafa gert sér í hugarlund myndu ganga mjög nærri öðrum hópum, svo sem fótgangandi útivistarfólki og hestmönnum, til dæmis,“ sagði hann. Það mætti hins vegar sjá fyrir sér skipulögð aksturssvæði og þau væru allmörg nú þegar. Einnig mætti í sjálfu hugsa sér að skipulagðar væru einhverjar leiðir en ekki væri hægt að veita leyfi fyrir þéttriðnu slóðaneti, eins og hjólamenn virðist leggja til.

Í hnotskurn
» Í Fuglavernd eru um 900 manns. Félagið rekur m.a. fuglafriðland í Flóanum og stendur fyrir fræðslufundum um fugla.
» Félagið hefur áhyggjur af því að torfæruhjólamenn spilli fuglalífi með akstri um sandana á Suðurlandi.
» Þar sé fjölbreytt fuglalíf en fuglarnir hrekist í burtu undan hávaðanum.