Flugfreyjur SAS vill fá að vera með kínverskar flugfreyjur í fluginu.
Flugfreyjur SAS vill fá að vera með kínverskar flugfreyjur í fluginu. — Reuters
SAS-flugfélagið norræna hefur hótað því að flytja hluta af skráðum flugflota félagsins í Danmörku yfir til Noregs eða Svíþjóðar.

SAS-flugfélagið norræna hefur hótað því að flytja hluta af skráðum flugflota félagsins í Danmörku yfir til Noregs eða Svíþjóðar. Ástæðan er tregða danskra stjórnvalda til að leyfa félaginu að vera með kínverskar flugfreyjur, sem ekki hafa atvinnuleyfi í Danmörku, í vélum félagsins sem fljúga á milli Danmerkur og Kína. Frá þessu er greint í danska blaðinu Berlingske Tidende (BT).

Haft er eftir Lars Sandahl Sørensen hjá SAS International í frétt BT , að staðan sé slík að það geti reynst nauðsynlegt fyrir félagið að grípa til þeirra ráðstafana að fara frá Danmörku með þann hluta starfseminnar sem snýr að fluginu til Kína fáist ekki leyfi fyrir kínversku flugfreyjunum. Hins vegar er haft eftir Verner Lundtoft Jensen, talsmanni stéttarfélags danskra flugliða, að þessar hótanir SAS séu algjörlega óviðunandi. Segir hann að hér sé um að ræða flugfélag sem sé að hluta til í eigu danska ríkisins, og það vilji ganga fram fyrir skjöldu og sniðganga dönsk lög.

Samtals fljúga sjö Airbus A340-flugvélar á vegum SAS til Kína og þar af eru fimm vélar skráðar í Danmörku.