„VIÐ skoðum hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það eru öll mál einstök og við förum yfir þetta með tryggingafélaginu sem um ræðir,“ segir Höskuldur H.

„VIÐ skoðum hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það eru öll mál einstök og við förum yfir þetta með tryggingafélaginu sem um ræðir,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri VISA, um mál Ástu Huldu Markúsdóttur, sem gagnrýndi tryggingavernd VISA í Morgunblaðinu á mánudag. Maður hennar fékk hjartaáfall í golfferð á Spáni í fyrrahaust og gagnrýndi Ásta meðferð tryggingamáls hans. Hún og eiginmaður hennar eru tryggð hjá VÍS og handhafar VISA-platínukorts. „Við teljum að í öllum aðalatriðum sé þjónustan sem við bjóðum okkar korthöfum góð og skilvirk. Þetta eru mörg hundruð mál á ári. Það koma alltaf upp einhverjir hnökrar. Þá verður að fara yfir það og laga það sem ekki er í lagi,“ segir Höskuldur.

Meðal þess sem Ásta Hulda gagnrýndi var að eftir að maður hennar veiktist hafi henni verið bent á að tala við SOS-neyðarþjónustuna í Kaupmannahöfn. Þar hafi hún þurft að lýsa sjúkdóminum og því hvernig tryggingamálum væri háttað á ensku.

Höskuldur segir neyðarkerfið þannig uppbyggt að reynt sé að hafa sem fæsta milliliði. „Stundum kemur það upp að tungumálaörðugleikar verða,“ segir hann. Það sé auðvitað ekki gott, en ástæða þess að vísað sé beint á þjónustuaðilann SOS sé að fækka milliliðum.