[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grillveislur eru alltaf sérstaklega skemmtilegar en ýmislegt þarf að hafa í huga áður en gestum er boðið að setjast við matarborðið. Greifinn á Akureyri hefur um árabil rekið grillþjónustu og Arinbjörn Þórarinsson, einn af eigendum Greifans, segir að mikilvægast sé að gæta að magninu.

Eftir Írisi Ölmu Vilbergsdóttur

iris@24stundir.is

„Gott er að vera búinn að áætla magn þannig að allir fái örugglega nóg. Það borgar sig að setjast niður í smástund og skrifa matseðilinn og ekki gleyma meðlætinu. Sem dæmi þá eru 400 g af kjöti á mann örugglega nóg, ein og hálf bökuð kartafla, 60-80 g af salati og 40 g af grilldressingum,“ segir Arinbjörn.

Gas eða kol?

Spurningin um gasgrill eða kolagrill kemur alltaf upp á vorin en að sögn Arinbjörns er þetta spurning um þægindi. „Það er alltaf ákveðin stemning að grilla á kolagrilli og vissulega er ákveðið bragð af matnum vegna kolanna. Hins vegar fylgir þessu ákveðið bras sem gott er að losna við með því að nota gasgrillin. Þau eru fljót að hitna og frágangur eftir grillið er mun minni. Þegar kemur að því að setja matinn á grillið er hitinn aðalatriðið. Grillið þarf að hita mjög vel áður en kjötið er sett á til þess að koma í veg fyrir að það festist við grindurnar. Þegar kveikt er á grillinu er gott að loka því og leyfa því að hitna í 10-15 mínútur þannig að grindurnar og steinkolin séu orðin vel heit. Ef grillmaturinn er settur á um leið og kveikt er á grillinu soðnar hann frekar en grillast og það tekur í heildina lengri tíma. Eins er gott að loka heitu grillinu í fimm mínútur þegar búið er að grilla. Þá er mun auðveldara að þrífa grindurnar,“ segir Arinbjörn.

Alltaf hægt að grilla

Gasgrillin hafa gert það að verkum að hægt er að grilla nánast allt árið um kring. „Ef kalt er í veðri tekur það grillið lengri tíma að hitna og það nær kannski ekki þeim hita sem til þarf svo best verði á kosið. Hins vegar eru grillin í dag flest það öflug að það á að vera hægt að grilla í nánast hvaða veðri sem er. Grillin eru því ekki vandamálið, frekar að manneskjan við grillið sé ekki tilbúin að standa yfir grillinu í skítakulda,“ segir Arinbjörn að lokum.
Í hnotskurn
Grillþjónusta Greifans gefur möguleika á að halda veislur næstum hvar sem er. Hægt er að setja upp slíkar veislur í tengslum við ráðstefnur, fundi, hvataferðir eða nánast af hvaða tilefni sem er. Nánari upplýsingar á www.greifinn.is.