Magnús Halldórsson „Það er enginn listamaður eins og allir hafa sinn stíl,“ segir listamaðurinn.
Magnús Halldórsson „Það er enginn listamaður eins og allir hafa sinn stíl,“ segir listamaðurinn. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Á LISTAHÁTÍÐINNI „List án landamæra“ sýna listamenn, bæði fatlaðir og ófatlaðir, alls kyns sköpunarverk. Hátíðin hefst á morgun í Reykjavík, en teygir sig síðan út um allt land og lýkur hinn 10. maí í Vestmannaeyjum.

Á LISTAHÁTÍÐINNI „List án landamæra“ sýna listamenn, bæði fatlaðir og ófatlaðir, alls kyns sköpunarverk. Hátíðin hefst á morgun í Reykjavík, en teygir sig síðan út um allt land og lýkur hinn 10. maí í Vestmannaeyjum. „Það er verið að vekja athygli á því að fatlaðir eru að skapa,“ segir Margrét M. Norðdahl, framkvæmdastýra hátíðarinnar. „Í þessum hópi eru listamenn eins og í öðrum í samfélaginu. Við erum gjörn á að draga fólk í dilka og svo einblínir hver á sína kreðsu. Þetta er líka hugsað til þess að hvetja fólk til þess að njóta listar og menningar.“

Hátíðin á rætur að rekja til Evrópuárs fatlaðra árið 2003. Þá voru skipulagðir margir listviðburðir og þótti tilefni til að halda árlega hátíð í sama anda. „Þetta vindur upp á sig með hverju árinu og hefur verið mjög vel sótt,“ segir Margrét. „Við höfum fengið marga gesti og það hefur verið mjög eftirsótt meðal listafólks að taka þátt.“

Á morgun klukkan fimm verður haldin opnunarhátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fjölmargir koma fram, meðal annars Danshópur Hins hússins ásamt Páli Óskari. Þar verður líka opnuð myndlistarsýning þar sem tuttugu listamenn sýna teikningar, textílverk og málverk.

Magnús Halldórsson á akrílmálverk á sýningunni. Hann er sjálfmenntaður í myndlistinni og er nú að taka þátt í sinni fyrstu sýningu. „Ég ætlaði ekki að taka þátt í henni fyrst, það var einhver skrekkur í mér. Svo sló ég þessu upp í kæruleysi og ákvað að vera með.“

Hann er ekki í nokkrum vafa um það hvað heillar hann mest við þetta listform. „Það er fjölbreytileikinn. Það eru engir tveir listamenn eins og allir hafa sinn stíl. Það finnst mér jákvætt.“