Miserfitt getur verið að komast leiðar sinnar á hjóli í borginni. Formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins segist þó ekki setja það fyrir sig að hjóla allan ársins hring.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Þessa dagana taka fjölmargir landsmenn aftur fram hjólhestana sína eftir nokkuð langan og kaldan vetur. Pétur Þór Ragnarsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins, segir það tilfinningu sína að hjólreiðafólki fari mjög fjölgandi þetta árið, enda fullt tilefni til. Hann varar þó við því að æða af stað í hjóltúr að vori án þess að athuga fyrst hvort ekki sé örugglega allt í fínu standi. „Maður þarf ekki að vera neinn sérfræðingur í hjólaviðgerðum til þess að geta yfirfarið hjólin heldur er nóg að hafa fengið smáleiðsögn um helstu atriði sem þarf að hafa í huga,“ segir hann en klúbburinn býður upp á viðgerðanámskeið fyrir byrjendur í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2 klukkan 20 í kvöld.

„Í raun er ótrúlega margt sem hinn almenni hjólaeigandi ætti að geta gert sjálfur og það er síst vanþörf á slíku núna þegar biðin eftir hjólaviðgerð getur orðið löng.“

Alltaf hægt

Aðspurður um aðstæður til hjólaiðkunar á höfuðborgarsvæðinu segir hann að þeim sé vissulega ábótavant. „Það fer þó mjög mikið eftir því hvaða leið fólk er að fara. Til dæmis er mjög bein og greið leið frá Árbænum og niður í miðbæ en um leið og menn ætla að hjóla til dæmis frá Árbæ og upp í Grafarholtið þurfa þeir að taka stóran krók á leið sína,“ bendir hann á. Hann bætir því við að sjálfur sé hann bíllaus og setji það ekki fyrir sig að hjóla allra sinna ferða allan ársins hring. „Ég er yfirleitt með aukaföt í vinnunni ef ske kynni að ég skyldi blotna á leiðinni og passa alltaf að klæða mig eftir veðri.“

Hjóla á götunni

Víða í nágrannalöndunum eru aðstæður til hjólaiðkunar mun hagstæðari en hér á landi. Í borgum og bæjum í Danmörku og Þýskalandi liggja til dæmis sérstakir hjólastígar gjarnan meðfram götum og gangstéttum, en Pétur segir að sér lítist enn betur á þá leið sem farin er víða í Bretlandi. „Þar eru settar merkingar á göturnar sem gefa til kynna að hjólreiðamenn eru í jafnmiklum rétti og ökumennirnir sjálfir. Hér á landi tel ég að hjólreiðamenn ættu að hjóla á götunum í stað gangstéttanna, að minnsta kosti ef þeir nota hjólið sem samgöngutæki og hjóla á 30 til 40 kílómetra hraða. Slíkur hraði á hjóli á ekki heima innan um gangandi vegfarendur. Mun betra er að halda sig við hægri kant gatnanna. Þá sjá ökumenn vel til manns og geta alltaf keyrt framhjá manni. Ég tek þó fram að enginn ætti að hjóla á stóru stofnbrautunum á borð við Miklubraut, slíkt væri of áhættusamt.“
Í hnotskurn
Íslenski fjallahjólaklúbburinn samanstendur af hópi fólks sem hefur hjólreiðamenningu að áhugamáli, vill auka veg reiðhjólsins sem samgöngutækis og vinnur að bættri aðstöðu hjólreiðafólks til samgangna. Heimasíða klúbbsins er á fjallahjolaklubbur.is.