Bambi Úr sígildri teiknimynd Disney frá árinu 1942.
Bambi Úr sígildri teiknimynd Disney frá árinu 1942.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
OLLIE Johnston, teiknari hjá Disney, er látinn, 95 ára að aldri. Johnston var einn hæfileikaríkasti teiknimyndahöfundur Disney í upphafi og vann m.a. að fyrstu löngu teiknimyndinni sem Disney-fyrirtækið gerði, Mjallhvíti , árið 1937.

OLLIE Johnston, teiknari hjá Disney, er látinn, 95 ára að aldri. Johnston var einn hæfileikaríkasti teiknimyndahöfundur Disney í upphafi og vann m.a. að fyrstu löngu teiknimyndinni sem Disney-fyrirtækið gerði, Mjallhvíti , árið 1937. Þá hafði hann yfirumsjón með teiknivinnu við Bamba og Fantasíu og var einn þeirra sem teiknuðu Gosa .

Johnston var einna hreyknastur af verkum sínum fyrir Bamba , sér í lagi þó atriðinu þar sem mamma Bamba deyr. Það atriði þótti honum sýna einna best mátt teiknimynda, hvernig þær gætu hreyft við tilfinningum fólks og sálarlífi.

Johnston nam myndlist við Stanford-háskóla á sínum yngri árum og gekk til liðs við Disney árið 1935. Hann er seinastur í hópi „níu öldunga“ svokallaðra, manna sem unnu brautryðjendastarf við gerð teiknimynda hjá Disney. Hann hlaut árið 2005 viðurkenningu fyrir ævistarf sitt, National Medal of Arts, sem þýða mætti sem Bandarísku listaorðuna.