— Morgunblaðið/RAX
Er einhvern veginn hægt að skerpa á reglunum þannig að skortsalan verði gagnsærri og stigamenn á fjármálamarkaði geti ekki stýrt markaðnum?

Viðskiptablað Morgunblaðsins fjallaði 17. janúar sl. um skortsölu á íslenskum hlutabréfum og var þá m.a. vitnað í nafnlausan heimildarmann í bankaheiminum. Þar kom fram að skortsalar geta stýrt markaðnum með því að ganga inn í lægstu kauptilboðin. „Það að skortsalar geti stýrt markaðnum hér á þennan hátt hefur beinlínis haft skaðleg áhrif á markaðinn að mati heimilda Morgunblaðsins og er ástæða til þess að skerpa töluvert á þeim reglum sem hér gilda,“ sagði í fréttinni. Þar kom jafnframt fram, og er ástæða til þess að ítreka það hér, að skortsala er ekki athugaverð. Hún veitir markaðnum aðhald og er mikilvægur þáttur í verðmyndun. Mikilvægt er þó að hún sé ekki misnotuð.

Áhugavert er að skoða þessa frétt í ljósi þeirra atburða sem sagt er að hafi átt sér stað á undanförnum vikum, þ.e. hin margumrædda atlaga erlendra spákaupmanna og vogunarsjóða við íslenska hagkerfið. Hér er ekki verið að halda því fram að skortsala á hlutabréfum hafi verið stærsta vandamálið en vissulega er hún hluti vandamálsins. Ennfremur er ekki verið að halda því fram að þótt reglurnar hefðu verið öðruvísi hefði það komið í veg fyrir árásina á íslenska hagkerfið. Sé brotavilji einbeittur mun reynast ómögulegt að koma í veg fyrir slíka árás.

Hins vegar má spyrja sig hvort ekki sé hægt að gera þeim sem yfir þessum brotavilja búa erfiðara um vik að gera atlögu að hagkerfinu. Er einhvern veginn hægt að skerpa á reglunum þannig að skortsalan verði gagnsærri og stigamenn á fjármálamarkaði geti ekki stýrt markaðnum?

Boðuð hefur verið alþjóðleg rannsókn á því hvort markaðsmisnotkun hefur átt sér stað. Um leið er nauðsynlegt að íslenski markaðurinn fari í naflaskoðun.

innherji@mbl.is