Verðhækkanir á áfengi hefðu líklega meiri áhrif á ungt fólk sem hefur minna fé milli handa en á hina eldri. Eftir því sem áfengisneysla eykst hjá þjóðum eykst hún frekar hjá þeim sem drekka mikið og eru til vandræða að sögn heilsuhagfræðings.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Það hefur mikinn heilsufarslegan og fjárhagslegan ávinning í för með sér að draga úr áfengisneyslu landsmanna. „Áfengi er varhugaverð vara að því leyti að það má rekja fjögur prósent af öllum dauðsföllum og örorku í heiminum til þess. Það eru kannski um 20% af öllum slysum sem tengjast ökutækjum í heiminum sem má rekja til áfengis og um einn fjórði af morðum,“ segir Haukur Freyr Gylfason heilsuhagfræðingur. Hann áréttar um leið að langflestir drekki án þess að skaði hljótist af. „Við erum aðallega að tala um þá sem valda skaða. En eftir því sem áfengisneysla eykst hjá þjóðum eykst hún frekar hjá þeim sem drekka mikið og eru þá til vandræða,“ segir hann.

Hækkanir og aðgengi

Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er kveðið á um að draga eigi úr áfengisneyslu.

„Ef verð á áfengi er hækkað dregur úr neyslu. Það sama má segja um aðgengi og auglýsingabann. Þó að þetta sé ekki endilega vinsælt hefur það áhrif,“ segir Haukur Freyr og bendir jafnframt á að tekið geti tíma fyrir hækkanir að hafa þessi áhrif. „Það er eins og með bensínverðið. Þegar bensínverðið hefur hækkað segir maður við sjálfan sig að maður ætli að draga úr notkun bílsins en kemur því ekki í verk alveg strax. Maður verður að velta fyrir sér hvar maður geti fengið strætókort eða gott reiðhjól til að bjarga sér,“ segir Haukur Freyr.

Meiri áhrif á yngra fólk

„Verðhækkanir myndu að öllum líkindum hafa meiri áhrif á ungt fólk en allan almenning,“ segir Haukur ennfremur og tekur undir að það hafi ekki jafnmikið fé milli handa og þeir eldri.

„Það má segja það sama um tóbak. Verðhækkanir á því hafa frekar áhrif á unga neytendur en eldri. Enn og aftur gerir maður sér fyllilega grein fyrir því að það væri ekki endilega vinsælt hjá öllum að sjá verðið á bjórnum eða sígarettupakkanum hækka,“ segir Haukur Freyr Gylfason að lokum.

Í hnotskurn
Haukur Freyr lauk M.Sc-prófi í heilsuhagfræði frá Háskólanum í York árið 2006. Áður hafði hann lokið MA-prófi í sálfræði frá HÍ, B.Sc-prófi í hagfræði og BA-prófi í sálfræði frá sama skóla. Haukur Freyr kennir við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.