[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sif Sigmarsdóttir | sif.sigmarsdottir@gmail.

Sif Sigmarsdóttir | sif.sigmarsdottir@gmail.com

Þegar þjónninn rak tána í stólfótinn hjá mér í þriðja sinn gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort veitingastaðurinn hefði aðeins verið hannaður með útlitið í huga en að notagildinu hefði enginn gaumur verið gefinn. Sem mikill aðdáandi þáttanna Beðmál í borginni varð ég að heimsækja veitingastaðinn Kong þegar ég átti leið um París sem kom við sögu í lokaþætti sjónvarpsseríunnar og hinn alræmdi franski hönnuður, Philippe Starck, teiknaði. Það var hins vegar ekki að undra þótt aumingjans starfsfólkið gerði lítið annað en að reka sig í hluti því þema staðarins reyndist vera gegnsætt plast. Frá sjónarhorni þeirra sem hlupu á milli borða og útdeildu mat og drykk virtust gestirnir – sem svitnuðu gegndarlaust á rassinum á plastinu – svífa í lausu lofti.

Nokkrum dögum síðar birtist viðtal við Starck í þýska blaðinu die Zeit þar sem hann hvorki meira né minna en fordæmdi vinnu sína, sagðist vera orðinn hundleiður á henni og hann hygðist hætta störfum. „Ég stóð að efnishyggju og ég skammast mín fyrir það,“ lýsti hann yfir. „Allt það sem ég bjó til var algerlega ónauðsynlegt. Hönnun er dauð.“

Ég er viss um að móðir mín leggur blessun sína yfir uppgjöf Starcks en fyrir nokkrum árum lét hún það eftir sér, þrátt fyrir að eyða sjaldan fjármunum í óþarfa prjál, að fjárfesta í forláta eldhúskrana sem hannaður var af manninum. Kraninn var vissulega fagurlega skapaður en notagildi hans var afskaplega takmarkað þar sem hann lét afar illa að stjórn.

En þessi sinnaskipti Starcks, afneitun hans á þeim munaði sem falleg hönnun er, eru þau ef til vill hluti hugarfarsbreytingar á tímum þegar kreppir að? Ég hafði séð merki praktískari hugsunar og afneitunar á óþarfa bruðli víðar.

Sannfæringin um munað

Þau merku tíðindi gerðust þegar ég kvaddi virðulega léttvínsmenningu Parísarborgar og hélt yfir til Lundúna þar sem bjórinn ræður ríkjum að bjórrisinn Stella Artois, sem verið hefur mest seldi bjór Bretlandseyja síðustu tuttugu árin, missti þann sess og þurfti að láta í minni pokann fyrir Carlsberg. Spekúlantar vilja meina að einkunnarorð Stellu sem reyndust henni svo vel á góðæristímum hafi nú komið í bakið á henni en þau eru: „Sannfærandi dýr“ (e. reassuringly expensive).

Svo virðist sem neytendur séu ekki lengi að snúa bakinu við óþarfa þegar herðir að. Á tímum þar sem hrakspár í tengslum við fjármálageirann eru daglegt brauð, matvæla- og olíuverð rýkur upp úr öllu valdi, verðbólga er æ stærra vandamál og það hriktir í húsnæðismörkuðum er fólk tregt til að borga aukalega fyrir þá sannfæringu að það sé að gera vel við sig. Hvers vegna að greiða eitt pund og sex pens fyrir „pæntið“ af Stellu þegar Carlsberg kostar ekki nema 85 pens?

Endurnýjun lífdaga

Ég get ekki tekið undir orð Starcks um að hönnun sé dauð. Ekki á ég heldur von á að tímar munaðarvarnings og óþarfa bruðls séu liðnir. Kranar sem láta ekki að stjórn, okurverð fyrir bjór og hálfósýnilegir plaststólar munu ganga í endurnýjun lífdaga á næsta góðæristímabili. Það er hins vegar eitthvað hálfkjánalegt við sveittan rass á krepputímum.