— NordicPhotos/AFP
Eftir Andrés Inga Jónsson andresingi@24stundir.is „Það er mikill léttir að vera fráskilin.

Eftir Andrés Inga Jónsson

andresingi@24stundir.is

„Það er mikill léttir að vera fráskilin. Núna get ég haldið áfram í skóla,“ sagði átta ára stúlkan Nujood Ali eftir að fjölskyldudómstóll í Jemen veitti henni lögskilnað frá þrítugum eiginmanni sínum.

Nujood kvartaði við dómstólinn undan eiginmanninum, sem hún sagði hafa beitt sig líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, og föður hennar, sem samþykkti hjónabandið. Féllst dómstóllinn á kröfu Nujood um skilnað, en sá sér ekki fært að dæma mennina til refsingar. Samkvæmt jemenskum lögum þóttu mennirnir ekki hafa brotið neitt af sér. Fjölskyldu Nujood var ennfremur gert að greiða eiginmanninum um 18.000 króna bætur fyrir eiginkonumissinn.

Tveir mánuðir eru síðan foreldrar Nujood gerðu hjúskaparsamning við eiginmann hennar. Í honum var kveðið á um að hún myndi búa í foreldrahúsum til átján ára aldurs. Viku eftir að samningurinn var gerður sendu foreldar Nujood hana til að búa hjá eiginmanni sínum.

Eiginmaðurinn barðist að sögn Yemen Times hatrammlega gegn skilnaðinum. „Ég læt ekki skilja okkur að,“ sagði hann fyrir rétti. „Það er réttur minn að halda henni.“

Barnabrúðir algengar

Nujood er fyrsta stúlkan sem lögsækir föður sinn fyrir að gifta sig á unga aldri, en því fer fjarri að mál hennar sé einstakt.

„Það eru hundruð stúlkna eins og Nujood sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi eldri karlmanna,“ segir hæstaréttarlögmaðurinn Shatha Mohammed Nasser við Yemen Times. „Vandamálið er að það eru engin lög til að refsa föðurnum sem gefur barnið í hjónaband, embættismanninum sem blessar ráðahaginn eða eiginmanninum sem lætur barnið þjóna sér sem eiginkona.“

Úrbætur fást ekki

Nasser hefur tekið mál Nujood upp á arma sína og biðlar til alþjóðasamfélagsins að þrýsta á að hjúskaparlöggjöf Jemen verði breytt. Kvennasamtökin Women's National Committe hafa áður hvatt þingið til að samþykkja 18 ára lágmarksaldur brúðhjóna, en án árangurs.
Í hnotskurn
UNICEF telur barnungar brúðir vera eitt stærsta vandamál í þróunarstarfi í Jemen. Kannanir sýna að meðalaldur stúlkna við giftingu í Jemen geti verið tæp 15 ár.