Það er þetta með bensínverðið og veikingu krónunnar. Ég reyndi að útskýra málið fyrir indverskri vinkonu minni. Bar mig illa, kvartaði fyrir hönd minnar kúguðu þjóðar. Hún spurði hvort fólk væri farið að finna þetta á eigin skinni.

Það er þetta með bensínverðið og veikingu krónunnar. Ég reyndi að útskýra málið fyrir indverskri vinkonu minni. Bar mig illa, kvartaði fyrir hönd minnar kúguðu þjóðar. Hún spurði hvort fólk væri farið að finna þetta á eigin skinni. - Já, bensínið er orðið miklu dýrara, alveg svakalegt, dæsti ég í gegnum Skype og klykkti út með að einn lítri kostaði jafnvel meira en þrjár máltíðir úti á götu á Indlandi.

- Það er eins gott að hægt er að dreifa svo miklum kostnaði á marga farþega, svaraði vinkonan. Ég þagnaði, tuldraði svo að venjulega væri bara einn í hverjum bíl, eða sko að meðaltali 1,2 til 1,3.

- Ha? Nú, ekur fólk þá um á pínulitlum bílum, svona smartbílum sem eyða engu? Ég hóstaði. Nei, eiginlega ekki. Jeppaeign er algeng. - Já, en er ekki óhagkvæmt að aka um á alltof stórum vélum, varstu ekki að segja að bensínið væri svo rosalega dýrt? Jú, jú. - Fólk notar bílana þá bara í neyð? Ég tafsaði, nei, rannsóknir sýndu að flestar bílferðir væru innanbæjarsnatt og ekki nema nokkrir kílómetrar. Á Íslandi væri bíllinn meira svona eins og yfirhöfn: Maður sveiflaði sér inn í heitan bílinn og klæddi sig svo úr honum eftir nokkra metra.

Vinkonan sprakk úr hlátri. – Þú ert sem sé að segja að þið séuð svo velmegandi að þið klæðist vélknúnum úlpum sem brenna skelfilega dýrum vökva?

- Uuuu, það voru þín orð, ekki mín. Við heyrumst, bless.