„OKKAR afstaða hefur verið að fara eins að og á almennum markaði,“ sagði Guðmundur H. Guðmundsson, varaformaður samninganefndar ríkisins, spurður út í orð Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, í Morgunblaðinu á mánudag.

„OKKAR afstaða hefur verið að fara eins að og á almennum markaði,“ sagði Guðmundur H. Guðmundsson, varaformaður samninganefndar ríkisins, spurður út í orð Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, í Morgunblaðinu á mánudag. Formaðurinn sagði þá vaxandi fylgi við þá hugmynd að semja aðeins til eins árs og „á þeim tíma gætu aðilar síðan sæst á leiðir til að færa kjaraumhverfið til betri vegar“.

Guðmundur segir ekki hafa verið tekið undir það af hálfu samninganefndarinnar að gera samning einungis til eins árs. „En við höfum samt ekki stungið upp á lokuðum samningi til þriggja ára. Fremur er horft til þess millivegar sem farinn var hjá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Við erum fyrst og fremst að horfa á einhvers konar útfærslu á því.“ Forsendur kjarasamninga SA og ASÍ eru að kaupmáttur launa haldist eða aukist og verðbólga fari lækkandi. Farið verður yfir það í febrúar á næsta ári hvort forsendur hafi staðist, og ef svo er framlengjast samningarnir til nóvember 2010. Ef ekki, verður samið um viðbrögð. Þetta ákvæði segir Guðmundur að þjóni svipuðum tilgangi og hugmynd Ögmundar.

Guðmundur segir samningafundi daglega, bæði við einstök félög og bandalög, og ágætis skriður sé á viðræðum þrátt fyrir ástandið í efnahagslífinu. „En það má kannski segja að við og stéttarfélög ríkisstarfsmanna eigum svolítið erfiðara um vik, því það hefur jú farið á verri veg síðan í febrúar.“