Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

„Kjartan Magnússon vinnur nú samviskusamlega að þeim verkefnum sem Haukur Leósson forveri hans var að vinna að þegar hann var rekinn af félögum sínum í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks,“ segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, um samkomulag REI og yfirvalda í Djíbúti um hagkvæmnisathugun á virkjanamöguleikum í Afríkuríkinu sem undirritað var í síðustu viku.

Breytt afstaða borgarfulltrúa

Óskar segir að svo virðist sem borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hafi kúvent í afstöðu sinni til útrásarverkefna Orkuveitu Reykjavíkur. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi sprungið í haust vegna þeirrar grundvallarafstöðu sjálfstæðismannanna að blanda ekki saman opinberum rekstri og áhættusömum einkarekstri. Nú fari boragarfulltrúar sjálfstæðismanna fremstir í flokki í útrás sem samrýmist ekki yfirlýstri afstöðu þeirra frá því í haust.

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitunnar og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir flokkinn hins vegar ekki hafa „breytt neinu í því meginviðhorfi að hið opinbera eigi ekki að vera í áhættusömum fjárfestingum í útlöndum“.

Áhætta OR lágmörkuð

Með því að bróðurpartur fjármagns í mögulega virkjun í Djíbúti komi frá erlendum aðilum, nánar tiltekið fjármögnunarsjóði Alþjóðabankans annars vegar og Evrópska fjárfestingarbankanum hins vegar, sé áhætta Orkuveitunnar af verkefninu lágmörkuð.

Gera megi ráð fyrir að ekki verði ráðist í áhættufjárfestingar erlendis nema ef tryggð hafi verið fjármögnun frá öðrum til þeirra verkefna. „Og við tökum ekki nýja peninga úr Orkuveitunni til að setja í útrásarverkefni,“ segir Kjartan.

Bankarnir betri en GGE?

Óskar segir að rökin fyrir því að sameina Geysi Green Energy og REI hafi einmitt verið þau að minnka áhættu Orkuveitunnar vegna útrásarverkefna, og svar Kjartans við athugasemd Óskars sé því marklaust. „Mér sýnist þetta snúast frekar um að alþjóðlegir bankar séu betri samstarfsaðilar en Geysir Green.“

Slæmt sé fyrir ímynd Orkuveitunnar og orkuútrásar Íslendinga í heild að misvísandi skilaboð berist frá stjórn REI. Svo virðist sem samkomulag liggi fyrir um virkjun í Djíbúti, segir Óskar, en samt sé fullyrt að samkomulagið sé ekki skuldbindandi. „Mér finnst eins og hugur fylgi ekki máli og það eru afskaplega slæm skilaboð frá jafn stóru og öflugu fyrirtæki og Orkuveita Reykjavíkur er.“

Í hnotskurn
Stjórnarformaður OR segir að áhætta OR vegna verkefna REI í Djíbúti hafi verið takmörkuð með því að erlendir aðilar fjármagni bróðurpart verkefnisins. Borgarfulltrúi Framsóknarflokks segir sömu rök hafa verið notuð fyrir því að sameina REI og GGE í október. Hann sakar borgarfulltrúa sjálfstæðismanna um að brjóta gegn yfirlýstri meginreglu sinni.