— Mynd/Benjamín Baldursson
Eftir Frey Rögnvaldsson freyr@24stundir.is Stuðningur við kornrækt á Íslandi er afar takmarkaður að mati kornræktenda.

Eftir Frey Rögnvaldsson

freyr@24stundir.is

Stuðningur við kornrækt á Íslandi er afar takmarkaður að mati kornræktenda. Ef stuðningur við ræktunina væri aukinn væri hægt að framleiða hátt í þrjá fjórðu þess kjarnfóðurs sem þörf er á hér á landi til búfjárræktunar. Um 11.000 tonn af byggi voru framleidd hér á landi í fyrra og talið er að þurfi að fimmfalda þurfi þá framleiðslu til að uppfylla innlenda eftirspurn.

Allt sáðkorn búið í landinu

Ingvar Björnsson, jarðræktarráðunautur hjá Búgarði á Akureyri, segir að vandræðalaust væri að framleiða allt bygg sem notað er í innlendar fóðurblöndur hér á landi. „Bygg er um það bil 75 prósent þess korns sem notað er í kjarnfóðri hér á landi. Í fyrra voru flutt inn um 39.000 tonn af byggi til landsins til fóðurgerðar. Annað korn, fóðurhveiti og maís, voru um 17.000 tonn og það er vel mögulegt að draga úr notkun þess og nota bygg í staðinn. Með hækkandi kornverði erlendis er staðan orðin sú að kornframleiðsla hér á landi er orðin vel samkeppnisfær við innflutt fóður. Framundir þetta hefur innflutt korn verið tiltölulega ódýrt enda það verið niðurgreitt, en eftirspurn eftir kornvöru á heimsmarkaði hefur orðið til þess að verð hefur hækkað gríðarlega að undanförnu.“

Ingvar segir ljóst að það muni verða mikil aukning í kornrækt í sumar. „Mér er sagt að allt sáðkorn sé búið í landinu og ég spái því að þessi ræktun muni aukast mikið á næstu árum. Í samtölum mínum við bændur greini ég mikinn áhuga á því að auka þessa ræktun enda ekki útlit fyrir að verð á innfluttu korni lækki.“

Innlent hlutfall 70 prósent

Hörður Harðarsson, svínabóndi í Laxárdal, rekur svínabúið Grís og flesk ásamt fjölskyldu sinni. Á búinu er innlent fóðurefni hátt í 70 prósent af því fóðri sem notað er. „Ef stuðningur við kornrækt væri sá sami hér og hann er á Norðurlöndunum, eða bara innan Evrópusambandsins, er ekki spurning að eftir mjög stuttan tíma yrði allt bygg sem þörf er fyrir í innlendu fóðri ræktað á Íslandi.“

Hörður segist bæði rækta bygg og kaupa af bændum í nágrenninu. Á síðasta ári voru ríflega 200 tonn af innlendu byggi notuð í fóður á búinu og stefnan er að auka það hlutfall verulega. Auk þess nota bændurnir í Laxárdal loðnumjöl og dýrafitu til íblöndunar. „Við stefnum að því að framleiða allt okkar fóður sjálf og til þess þurfum við að framleiða ríflega 800 tonn af byggi. Við teljum það mjög raunhæft markmið.“

ÞEKKIR ÞÚ TIL?

Í hnotskurn
Í fyrra voru framleidd 11.000 tonn af byggi hér á landi. Á sama tíma voru 39.000 tonn flutt inn. Auk þess voru flutt inn 17.000 tonn af fóðurhveiti og maís til kjarnfóðurgerðar. Í fyrra voru jafnframt flutt inn 14.000 tonn af mathveiti og 2.000 tonn að maltbyggi til ölgerðar. Hafin er tilraunaræktun á hveiti og maltbyggi hér á landi.