Hildur Halldóra Karlsdóttir
Hildur Halldóra Karlsdóttir
Hildur Halldóra Karlsdóttir skrifar í tilefni umræðu um miðbæjarkjarna Reykjavíkur: "Vegna umræðunnar um miðbæjarkjarna Reykjavíkur."

HVAÐ sérðu eiginlega við þessa kofa var ég spurð fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar ég tók þátt í að berjast fyrir því að Bernhöftstorfa, Hótel Vík og Fjalakötturinn yrðu ekki rifin. Ég gat ekki svarað því öðruvísi þá en að ég kunni vel við þessi gömlu hús miðbæjarins og fannst þau falleg. Í dag hafa mjög mörg gömul hús verið rifin í bænum og byggðar í staðinn háar blokkir. Ég get þess vegna vel svarað þessari spurningu í dag. Það sem ég sé í gömlu húsunum er saga. Saga um þjóð sem hefur ekki alltaf haft það gott. Saga sem ég er stolt af en skammast mín ekki fyrir og hef ekki áhuga á að afmá úr umhverfinu.

Í dag berja sér margir á brjóst fyrir að það sé svo vel heppnað hvernig Bernhöftstorfan og Grjótaþorpið hafi verið gert upp. En málið með Bernhöftstorfuna var í jafnmikilli sjálfheldu og Þingholtin eru í dag.

Húsin höfðu grotnað niður í langan tíma og enginn vildi taka ákvörðun um að varðveita þessi hús af því það var ekki nógu fjárhagslega

hagkvæmt. Það var ekki fyrr en Vilmundur Gylfason var í stuttan tíma í valdastól og tók af skarið og gerði samning við Torfusamtökin um að gera þessi hús upp. Í dag finnst flestum þessi hús vera ómissandi hluti miðbæjarmyndarinnar. Þegar umræðan var árið 1978 um friðun Fjalakattarins segir Þorkell Valdimarsson í viðtali við DV að hann sé tilbúinn til samninga um makaskipti á lóðum. En málið snerist um að enginn vildi taka ábyrgð á að ákveða að friða Fjalaköttinn og því gerðist það stórslys í byggingasögu Reykjavíkur að Fjalakötturinn, þá elsta kvikmyndahús í Evrópu, var rifinn.

Þegar ýmis gömul skipulög eru skoðuð má finna m.a. áætlun sem gerði ráð fyrir því að rífa Tjarnargötuna eins og hún lagði sig og það átti að leggja hraðbraut yfir Tjörnina, helstu perlu miðbæjarins. Er ekki kominn tími til þess að meta sögu okkar og taka stefnu og friða hjarta borgarinnar. Við erum ekki upprunnin úr menningasögu sem byggði hús eins og má sjá víða í Evrópu. Við erum komin af fólki sem þurfti að heyja harða lífsbaráttu. Húsin eru mörg ósamstæð og eru kannski skemmtilega lýsandi fyrir það hvernig menningin er. Við erum ólík og höfum ólík viðhorf og það gerir lífið fjölbreytilegra. Það er fáránlegt að vera alltaf að hugsa út frá því að miðbærinn sé með auðar lóðir. Þetta er fullbyggt svæði. Ný hverfi má skipuleggja út frá steinkumbaldastefnunni en ég skora á

borgarstjórn Reykjavíkur að sýna kjark og framsýni og taka

heildarstefnu með gamla bæinn. Ekki taka þátt í að skaða hjarta

borgarinnar meir en orðið er.

Höfundur er bókasafnsfræðingur.