Eiríkur Guðnason
Eiríkur Guðnason
Eftir Eirík Guðnason: "Heyrst hafa tillögur um að Seðlabankinn lækki vextina þótt verðbólga sé mikil og horfur slæmar. Í því felst beiðni um uppgjöf sem ekki stendur til að verða við."

Mikil umræða hefur verið um efnahagsmál eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans og útgáfu Peningamála 1-2008 10. apríl sl. Það er ágætt. En margt af því sem sagt er byggist á misskilningi, jafnvel fordómum. Það er t.d. algjör misskilningur, sem talsmenn Félags fasteignasala halda fram, að spá sérfræðinga Seðlabankans um þróun fasteignaverðs byggist á ósk bankans um „alkul“ á húsnæðismarkaði. Sérfræðingarnir leggja fram spá sem þeim þykir líkleg en benda jafnframt á verulega óvissu í því sambandi. Eftir gríðarlega mikla hækkun húsnæðisverðs undanfarin ár, langt umfram byggingarkostnað, þarf það ekki að koma á óvart þótt einhver lækkun verði. Sú er reynslan í öðrum löndum og einnig eru dæmi um slíkt í okkar hagsögu. Reyndar er spá sérfræðinganna núna ekki ýkja frábrugðin þeirri sem sett var fram í nóvember sl. að öðru leyti en því að nú er reiknað með meiri verðbólgu og því meiri raun lækkun en þá. Spáin felur í sér að nafnverð húsnæðis lækki á þremur árum um 20%, en í nóvemberspánni var reiknað með 16% lækkun nafnverðs.

Tilefni þessa greinarkorns er þó ekki að fjalla um fasteignaverð heldur að fara nokkrum orðum um það sem sagt hefur verið að Seðlabankinn hafi misst trúverðugleika og honum beri að setja hæfari yfirstjórn, m.a. erlenda sérfræðinga. Það væri óskandi að lausn efnahagsvanda væri svona einföld. Nú vill svo til að erlendir sérfræðingar fjalla gjarnan um efnahagsmál hér. Stutt er síðan Efnahags- og framfarastofnunin OECD gaf út skýrslu um Ísland. 1 ) Umfjöllun um stjórn peningamála þar er nokkuð ólík þeirri sem verið hefur algeng í fjölmiðlum hér síðustu daga. M.a. segir þar, í lauslegri þýðingu, á bls. 53.

„Starfsreglur Seðlabankans um verðbólgumarkmið endurspegla að mörgu leyti bestu vinnubrögð við framkvæmd peningamálastefnu. Sérstaklega er eftirtektarvert hve faglega er staðið að rannsóknum, spám og framsetningu efnis, þrátt fyrir takamarkaða afkastagetu. Sú stefna sem nú er fylgt virðist þar að auki hin rétta og stuðlar hún að stöðugleika í hagkerfinu. Fylgja ætti núverandi starfsreglum þar til verðbólgumarkmiðið hefur náðst, þar eð ótímabærar breytingar gætu haft öfug áhrif. Síðar ætti að slípa starfsreglurnar til svo að peningamálastefnan virki betur.“

Á bls. 55 taka sérfræðingar OECD saman tillögur sínar í peningamálum í hnotskurn á eftirfarandi hátt (lauslega þýtt og nokkuð stytt):

Þótt birt sé spá um vaxtaferil ætti það ekki að útliloka að vikið sé frá honum til að bregðast við óvæntri þróun. Það á sérstaklega við ef gengi krónunnar fellur. Ráðherrar ættu að virða sjálfstæði Seðlabankans, þar eð opinber gagnrýni vaxtaákvarðana af þeirra hálfu dregur úr slagkrafti peningamálastefnunnar. Til að styrkja vaxtaviðmiðun langra og meðallangra lána ætti ríkissjóður að gefa út ríkisskuldabréf þótt ekki sé þörf á að afla lánsfjár. Ekki ætti að fresta því lengur að breyta Íbúðalánasjóði þar eð ríkjandi aðstæður veikja áhrif peningamálastefnu.

Varðandi endurskoðun starfsreglnanna í framtíð segir ennfremur:

Leggja ætti ríkari áherslu á verðbólguvæntingar. Endurskoða ætti það hvernig húsnæðiskostnaður er tekinn inn í vísitöluna. Vilji Ísland taka upp evru ætti það að ganga inn í ESB og myntbandalagið. Einhliða upptaka evru er ekki raunhæfur kostur.

Fyrir rúmu hálfu ári birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn einnig skýrslu um Ísland 2 ) og hvatti mjög til áframhaldandi aðhalds í peningamálum líkt og OECD. Því verður ekki annað sagt en að bankinn njóti góðs af ábendingum erlendra sérfræðinga.

Það vekur undrun mína varðandi umræðuna að undanförnu hve lítið er fjallað um rót þeirra vandamála sem við er að glíma og það hvernig við stuðlum að því að koma hér á betra jafnvægi. Ójafnvægið lýsir sér ekki síst í miklum viðskiptahalla við útlönd sem skýrist að verulegu leyti af mikilli neyslu. Við eyðum um efni fram og byggjum eyðsluna að hluta til á lánum. Viðskiptahallinn og erlendu skuldirnar valda því m.a. að íslenska krónan varð skotmark fjárfesta. Háir vextir og gengi eiga líka sinn þátt. En vextirnir hefðu ekki þurft að verða svona háir ef hér hefði verið meiri ró yfir vötnum og ekki sú gengdarlausa umframeyðsla sem einkennt hefur síðustu ár. Heyrst hafa tillögur um að Seðlabankinn lækki vextina þótt verðbólga sé mikil og horfur slæmar. Í því felst beiðni um uppgjöf sem ekki stendur til að verða við. Eitt helsta viðfangsefnið núna ætti að vera að ná niður almennri eftirspurn. Óskandi væri að það gerðist með aukinni sparnaðarhneigð landsmanna. Miðað við reynsluna er það ekki líklegt og því hlýtur að þurfa strangt aðhald á öllum sviðum.

Það að nefna evru sem lausn aðsteðjandi vanda er flótti frá viðfangsefninu. Auðvitað á að eiga sér stað yfirveguð umræða um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og myntbandalaginu. En það er langtímamál sem fyrst þarf að útkljá á pólitískum vettvangi. Einhliða upptaka evru er mikið óráð, m.a. vegna þess að fjármálafyrirtæki hafa ekki aðgang að seðlabanka sem gefur út evrur. Síst af öllu ættu fjármálafyrirtæki að standa að svo óábyrgri ráðstöfun.

Misskilningur og fordómar í garð Seðlabankans ríða ekki við einteyming þessa dagana. Sem ég er að skrifa þessa grein er haft eftir stjórnarformanni Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka í Fréttablaðinu að hann telji „pólitískar ástæður fyrir því að Seðlabankinn veiti Straumi ekki leyfi til að skrá hlutafé sitt í evru“. Seðlabankinn hefur ekki vald til að veita slíkt leyfi né til að banna slíkt. Það sem gerðist hins vegar sl. haust var að bankinn benti á lagalega og tæknilega annmarka á því að Verðbréfaskráning Íslands tæki á skrá hjá sér bréf í evrum. Sérfræðingar í Seðlabankanum telja raunar að ábendingarnar hafi afstýrt slysi varðandi frágang viðskipta með verðbréf. Fram er komið frumvarp sem ætlað er að sníða burt lagalega annmarkann og skilst mér að Verðbréfaskráning Íslands vinni að því að laga þá tæknilegu. Rafræn eignaskráning verðbréfa og frágangur viðskipta með þau eru ekki einskorðuð við Verðbréfaskráningu Íslands þótt um sé að ræða bréf sem skipt er með hér á markaði.

1 ) OECD Economic Surveys. Iceland, Volume 2008/3, February 2008

2 ) Staff Report for the 2007 Article IV Consultation. Skýrsluna má finna hér:

http://www.imf.org/external/country/ISL/index.htm

Höfundur er seðlabankastjóri.