Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur falið tveimur fyrrverandi hæstaréttardómurum að fara yfir gögn er varða sprengjuárás sem íslenskir friðargæsluliðar urðu fyrir í Kjúklingastræti í Kabúl í október 2004 og skulu þeir skila skýrslu um...

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur falið tveimur fyrrverandi hæstaréttardómurum að fara yfir gögn er varða sprengjuárás sem íslenskir friðargæsluliðar urðu fyrir í Kjúklingastræti í Kabúl í október 2004 og skulu þeir skila skýrslu um málið á komandi sumri. Tvær konur létust í árásinni og þrír íslenskir friðargæsluliðar særðust.

Íslenska ríkið hefur ekki greitt bætur til ættingja þeirra sem létust né heldur til þeirra sem særðust í árásinni. Þetta kom fram í svari Ingibjargar við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, um málið. Ekki hefðu verið taldar forsendur til þess að greiða bætur þar eð árásin hafi verið gerð á íslensku friðargæsluliðana og manntjón ekki verið af þeirra völdum.

Ingibjörg er nýlega komin heim úr ferð til Afganistans. Í kjölfar ferðarinnar hafa skapast nokkrar umræður um starf friðargæslunnar í Afganistan. Ingibjörg segir ástæðu þess að hún hafi ákveðið að fá álit á atburðunum í Kabúl vera þá að ýmsir virðist telja að ekki séu öll kurl komin til grafar í málinu. „Þetta mál er ítrekað tekið upp í umræðu um störf friðargæslunnar og það er von mín að með þessu getum við metið atvikin svo að hafið sé yfir allan vafa að framganga og viðbrögð utanríkisráðuneytisins hafi verið á þann hátt sem þau gátu best orðið.“ freyr@24stundir.is