Áhyggjulaus „Ég hef engar áhyggjur af því þó ég verði drumbslegur og leiðinlegur. Það er svo skemmtilegt fólk sem á að stjórna þessu,“ segir Einar Kárason um Ritþing í Gerðubergi þar sem verk hans verða til umfjöllunar.
Áhyggjulaus „Ég hef engar áhyggjur af því þó ég verði drumbslegur og leiðinlegur. Það er svo skemmtilegt fólk sem á að stjórna þessu,“ segir Einar Kárason um Ritþing í Gerðubergi þar sem verk hans verða til umfjöllunar. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is NÆSTA Ritþing Gerðubergs ber yfirskriftina Þar sem sögueyjan rís , og eins og nafnið ber með sér verður Einar Kárason rithöfundur og verk hans þar til umræðu.

Eftir Gunnhildi Finnsdóttur

gunnhildur@mbl.is

NÆSTA Ritþing Gerðubergs ber yfirskriftina Þar sem sögueyjan rís , og eins og nafnið ber með sér verður Einar Kárason rithöfundur og verk hans þar til umræðu. „Það verður farið yfir allt sem ég er búinn að vera að gaufa við,“ segir Einar. „Ég var að reikna það út að það eru 29 ár síðan fyrsta bókin kom út, sem var ljóðabók, og síðan eru þetta orðnar tíu skáldsögur og tíu öðruvísi bækur, kvikmyndahandrit og fleira. Það verður fjallað um allan minn höfundarferil frá upphafi.“

Einar segist enn vera svolítið taugaóstyrkur þegar hann þarf að koma fram og tala um verk sín. „Ég er búinn að lesa mikið upp og vera með svona alls konar uppistand lengi. Ég er nú með þá kenningu að þann dag sem maður finnur ekki lengur fyrir sviðsskrekk þá verði maður hættur að taka það alvarlega sem maður er að gera.“

Skemmtun gesta í Gerðubergi um helgina er þó tryggð að sögn Einars, sama hvernig hann kemur til með að standa sig. „Ég hef engar áhyggjur af því þótt ég verði drumbslegur og leiðinlegur. Þetta er svo skemmtilegt fólk sem á að stjórna þessu,“ segir Einar og á þar við þau Halldór Guðmundsson, Sjón og Gerði Kristnýju sem hafa það hlutverk á þinginu að spyrja Einar spjörunum úr. „Þau munu sjá um að þetta glansi,“ segir hann.

Ný skáldsaga á leiðinni

Einar segir það fyrst og fremst heiður að fá að koma fram á Ritþingi, en það gæti líka verið að þingið yrði honum innblástur til nýrra verka. „Ég spurði hann Sigurð Pálsson sem skrifaði sína Minnisbók um daginn hvaðan honum hefði komið hugmyndin og hann sagði að þetta hefði kviknað á Ritþingi í Gerðubergi fyrir nokkrum árum.“

Endurminningar Einars verða að bíða í bili því hann er upptekinn við annað verkefni. „Ég er að skrifa skáldsögu,“ segir hann. Síðasta skáldsaga hans, Stormur , kom út fyrir næstum fimm árum og lesendur hans orðnir spenntir að fá þá næstu í hendur. „Ég segi eins og Soffía frænka þegar hún var beðin að syngja á bæjarhátíðinni í Kardemommubæ: Það á eftir að koma í ljós hversu gaman það verður.“

Einar er tregur til þess að ræða þetta verk nánar, enda gæti það spillt fyrir skriftunum. „Ég hef aldrei getað talað um svoleiðis fyrr en ég þarf að skila því af mér.“ Stefnt er að útgáfu bókarinnar á þessu ári, en Einar slær varnagla með tilvitnun í Dag Sigurðarson: „Enginn veit sína ævina fyrr en hann fer í hundana.“

Í hnotskurn
» Einar Kárason hefur skrifað tíu skáldsögur. Meðal þeirra þekktustu er þríleikurinn Þar sem djöflaeyjan rís, Gulleyjan og Fyrirheitna landið sem fjalla um líf alþýðufólks í Reykjavík á stríðsárunum.
» Ritþingið hefst klukkan 13.30 á laugardaginnn í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og stendur til klukkan 16.

Innsýn í líf og starf

Á Ritþingum í Gerðubergi er leitast við að gefa innsýn í líf og starf rithöfunda. Þar er ekki aðeins fjallað um höfundarverk þeirra, heldur líka persónulegt líf og hvernig það blandast inn í ritstörfin.

Meðal höfunda sem teknir hafa verið til umfjöllunar á Ritþingum eru Sigurður Pálsson, Einar Már Guðmundsson, Steinunn Sigurðardóttir, Arnaldur Indriðason og Thor Vilhjálmsson.