[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VILHJÁLMUR Vilhjálmsson heitinn virðist ofarlega í huga landsmanna ef marka má sölu á plötunni Myndin af þér , sem situr enn í fyrsta sæti Tónlistans.

VILHJÁLMUR Vilhjálmsson heitinn virðist ofarlega í huga landsmanna ef marka má sölu á plötunni Myndin af þér , sem situr enn í fyrsta sæti Tónlistans. Halda á mikla og glæsilega minningartónleika um Vilhjálm seinna á þessu ári og ljóst að margir munu kunna lögin utan að, ungir sem aldnir. Þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá lokaþætti Laugardagslaganna er plata með tónlist úr þáttunum, Laugardagslögin 2008 , enn vinsæl og situr sem fastast í öðru sæti. Lögin virðast því hafa lagst það vel í landsmenn að þeir vilji eiga þau á plötu og skal svo sem engan undra.

Íslenskar plötur eru áberandi á listanum, Hinn íslenzki Þursaflokkur gerir það gott með Þursum, stekkur úr 9. sæti í 3. Páll Óskar reið feitum hesti frá Íslensku tónlistarverðlaununum 18. mars sl. og virðist vinsælli en nokkru sinni. Platan Allt fyrir ástina dettur að vísu úr 3. sæti í 5. en Palli virðist eiga nóg inni í ljósi þess að platan hefur verið 23 vikur á lista yfir 30 mest seldu plöturnar.

Plata Sigríðar Níelsdóttur, Hin daglegu störf, er ný á lista og stekkur í 6. sæti. Sigríður hefur verið iðin við útgáfu diska þrátt fyrir að vera á áttræðisaldri og mörgum ungum innblástur.

Gröndal er vær og vill ekki vakna

ÞJÓÐIN virðist ætla að lifa lengi á Laugardagslögunum. Ekki er nóg með að platan með lögunum sé í öðru sæti Tónlistans heldur eru fimm lög í efstu sætum Lagalistans og eitt þeirra í fyrsta sæti, „Don't Wake Me Up“ með Ragnheiði Gröndal. Ragnheiður er einhver hæfileikaríkasta söngkona þjóðarinnar og allar líkur á því að hún syngi menn í svefn frekar en að vekja þá með silkimjúkri röddinni.

Lagið sem Ísland sendir til keppni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, „Fullkomið líf/This is My Life“, er í 12. sæti og njóta því fjögur önnur Laugardagslög meiri vinsælda. Eitt Laugardagslag er þó ekki á lista lengur, „Ho, ho, ho we say hey, hey, hey“ með Merzedes Club, brúnkukremssveitinni ógurlegu. Hvort Síma-auglýsingarlagið hafi tekið alla athygli af því lagi skal ósagt látið. Maðurinn með töffararöddina, Eddie Vedder, nýtur mikilla vinsælda skv. Lagalistanum með lagið „Guaranteed“.

Gleðisveitin Buff syngur um þakklæti í lagi með því nafni á plötunni Íslenskar járnbrautir , en platan er hins vegar ekki á Tónlistanum. Lagið er þó í 4. sæti. Lagið „Love Song“ með Söru Bareilles hefur setið lengst á topp 30, 16 vikur, en klifrar upp um níu sæti.