[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ósköp vorkenni ég Eiríki Bergmann Einarssyni. Í 24 stundum föstudaginn 14. mars sl. endurbirtir maðurinn ársgamlan þvætting sinn um andstöðu Frjálslynda flokksins gegn innflytjendum.

Ósköp vorkenni ég Eiríki Bergmann Einarssyni. Í 24 stundum föstudaginn 14. mars sl. endurbirtir maðurinn ársgamlan þvætting sinn um andstöðu Frjálslynda flokksins gegn innflytjendum. Hinir vondu menn sem Eiríkur segir túlka stefnu flokksins í innflytjendamálum eru Jón Magnússon, Viðar Helgi Guðjohnsen og ég, Kristinn Snæland. Ekki mun ég reyna að upplýsa Eirík um afstöðu Jóns og Viðars almennt til innflytjenda en svo vel þekki ég til þeirra að geta fullyrt að engan illvilja né rasisma hafa þeir í huga þótt þeir vari við fjölmennum fólksflutningum hingað til lands. Það er annað að vilja skynsamlega stjórn þeirra mála en að vera andstæðingur erlendra ríkisborgara.

Tilvitnun úr samhengi

Svo lágt leggst Eiríkur að vitna enn á ný í brot úr ræðu sem ég flutti á fundi hjá Frjálslyndum í Skeifunni rétt fyrir um það bil ári. Það brot var af illvilja fréttastofu Ríkisútvarpsins valið í þeim tilgangi að varpa því ljósi á fundinn að þar hefðu rasistar haft sig í frammi.

Öll ræða mín á fundinum fjallaði um hina raunverulegu rasista á Íslandi, stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtoga og atvinnurekendur sem sameinaðir hafa brugðist hinu erlenda verkafólki sem streymt hefur til landsins. Þetta veit Eiríkur en kýs enn að bíta sig í hinn óvandaða málflutning Ríkisútvarpsins.

Vissulega sagði ég: „Ég get sagt ykkur það. Ég fann ekki að ég væri, ef ég segi minni gömlu Málmey. Þarna voru Tyrkir og svertingjar og múslimar að selja kebab og pitsur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var óhuggulegt.“ Þetta er hárrétt tilvitnun en algerlega slitin úr samhengi og vissulega má skilja hana sem rasisma eða andúð.

Níðingar og rasistar

Ég fullyrði að þann dag sem fjöldi innflytjenda í Reykjavík er orðinn slíkur að á 17. júní, þjóðhátíð okkar Íslendinga, gengi Eiríkur Bergmann Einarsson frá Ingólfstorgi og austur á Lækjartorg og sæi hvergi eða einungis á stangli Íslending, þætti jafnvel honum nóg um og jafnvel um of. Þannig varð mér innanbrjósts. Ég mun eftir sem áður taka sem ávallt vel á móti erlendu fólki hér og sýna því vinsemd og hjálpfýsi.

Ég vil ekki að því sé haldið niðri í launum, látið búa í ólöglegu húsnæði og njóti ekki allra almennra réttinda, svo sem þjónustu heilsugæslu. Níðingarnir og rasistar í okkar landi eru þeir sem ég taldi upp hér að framan. Gegn þeim óþokkum sem gera slíkt hef ég barist, bæði með skrifum og gaspri í útvarpi.

Ég hef tekið eftir því að einn áberandi pistlahöfundur hefur ekki skrifað stafkrók gegn því óþurftarliði sem nýtir erlent vinnuafl sem hverja aðra þræla. Sá maður sem ég hef í huga er Eiríkur Bergmann Einarsson. Hann hefur staðið hjá aðgerðalaus og hefur af því skömm mína. Honum væri við hæfi að fella niður millinafn sitt og taka upp þess í stað millinafnið Biedermann. Nema hann kysi að draga höfuð sitt upp úr sandinum.

Höfundur er leigubílstjóri