Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is REGLULEG heildarlaun forstjóra á Íslandi hækkuðu um 15,1% á síðasta ári, en laun verkafólks hækkuðu hins vegar um 9,6%. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær um laun á síðasta ári.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

REGLULEG heildarlaun forstjóra á Íslandi hækkuðu um 15,1% á síðasta ári, en laun verkafólks hækkuðu hins vegar um 9,6%. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær um laun á síðasta ári.

Tölurnar eru byggðar á upplýsingum úr launarannsókn Hagstofu Íslands. Launarannsóknin byggist á handahófsúrtaki fyrirtækja og stofnana með tíu eða fleiri starfsmenn.

Samkvæmt tölunum voru meðalheildarlaun á mánuði 368 þúsund krónur og höfðu þau hækkað um 10,5% á árinu. Í heildarlaunum teljast regluleg laun, auk yfirvinnu. Regluleg heildarlaun forstjóra voru 953 þúsund á mánuði í fyrra.

Ef litið er á heildarlaun, þ.e. taldar með ýmsar óreglulegar greiðslur s.s. orlofs- og desemberuppbót, eingreiðslur, ákvæðisgreiðslur og uppgjör vegna mælinga, fara forstjóralaun upp í 1.351 þúsund á mánuði.

Laun byggingarverkamanna lækkuðu

Regluleg heildarlaun verkafólks hækkuðu um 9,6% í fyrra og námu 285 þúsundum, en fóru í 316 þúsund þegar allar eingreiðslur eru taldar með. Laun iðnaðarmanna hækkuðu minna á síðasta ári en annarra eða aðeins um 7,6%. Laun almennra byggingarsmiða, þ.e. ófaglærðra smiða, lækkuðu raunar í fyrra. Fóru úr 331 þúsundi á mánuði í 312 þúsund. Þetta er lækkun um 5,7%.

Laun verslunar- og skrifstofufólks hækkuðu á síðasta ári í takt við almenna launaþróun í landinu. Laun starfsfólks sem vinnur á kassa í stórmörkuðum hækkuðu þó minna en annarra eða aðeins um 5,7%. Kaupmáttur þessa hóps jókst því aðeins um 0,7% í fyrra því að verðbólgan á tímabilinu var 5%.

Laun kvenna hækkuðu meira en karla

LAUN kvenna hækkuðu heldur meira á síðasta ári en laun karla samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Verulegur munur er eftir sem áður á launum kynjanna. Regluleg heildarmánaðarlaun karla voru á síðasta ári 402 þúsund krónur á mánuði og hækkuðu um 9,5% milli ára. Regluleg laun án yfirvinnu námu 332 þúsund á mánuði. Meðallaun kvenna voru hins vegar 296 þúsund (256 þúsund án yfirvinnu) og hækkuðu um 12,5% milli ára.

Vinnutími fólks styttist á síðasta ári. Launafólk vann að meðaltali 44,8 stundavinnuviku; karlar unnu 46,8 stundir og konur 41,8 stund. Vinnuvika beggja kynjanna hefur heldur styst síðustu ár, en þó heldur meira hjá konum. Tölur Hagstofunnar ná aftur til ársins 1998, en þá var vinnuvika kvenna 43,6 stundir og karla 47,8 stundir.