Brött Tinna Ásgeirsdóttir, prentsveinn hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum, keppir á Íslandsmóti iðngreina 2008 sem verður í Reykjavík um helgina.
Brött Tinna Ásgeirsdóttir, prentsveinn hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum, keppir á Íslandsmóti iðngreina 2008 sem verður í Reykjavík um helgina. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Egilsstaðir | Á morgun hefst í Laugardalshöllinni í Reykjavík Íslandsmót iðngreina. Um 80 keppendur af öllu landinu taka þátt og keppt verður í 11 iðngreinum.

Egilsstaðir | Á morgun hefst í Laugardalshöllinni í Reykjavík Íslandsmót iðngreina. Um 80 keppendur af öllu landinu taka þátt og keppt verður í 11 iðngreinum.

Meðal keppenda í grafískri miðlun er Grindvíkingurinn Tinna Ásgeirsdóttir, 22 ára gamall nemi í grafískri miðlun hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum. Hún segir að hringt hafi verið frá Iðunni fræðslusetri og sér boðin þátttaka.

„Við erum fjögur sem keppum í þessari grein, mætum á staðinn í fyrramálið ásamt ljósmyndurum og dregið verður um hverjir raðast með hvaða ljósmyndara,“ segir Tinna. „Síðan eigum við að leysa eitthvert tiltekið verkefni sem fyrir okkur verður lagt. Það gæti t.d. verið að setja upp plakat, eða eitthvað í tengslum við netið. Mér finnst þetta bara mjög spennandi og gaman að fá að taka þátt.“

Tinna segist aðspurð hafa á tilfinningunni að iðnmenntun sé af mörgum enn sett skör lægra en menntun til stúdentsprófs og finnst það mikil firra. Iðnnám gefi mjög víðtæka möguleika og öll menntun sé af hinu góða.

Framtíðin er óhönnuð enn

Tinna lærði grafíska miðlun í tvö ár í Iðnskólanum í Reykjavík og hefur verið á samningi hjá Héraðsprenti í tæpt ár. Hún tekur sveinspróf í maí nk. Að því búnu ætlar hún að starfa hjá Héraðsprenti í ár til viðbótar, þar sem hún fæst við fjölbreytt verkefni. Hún segist ekki vita hvort hún læri meira í sinni iðn eða skipti yfir í eitthvað allt annað. Framtíðin sé alveg óráðin.