Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 4,7 milljörðum króna í janúar 2008 samanborið við 5,8 milljarða í janúar 2007. Aflaverðmæti hefur dregist saman um 1,1 milljarð eða 18,3% milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 4,7 milljörðum króna í janúar 2008 samanborið við 5,8 milljarða í janúar 2007. Aflaverðmæti hefur dregist saman um 1,1 milljarð eða 18,3% milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Aflaverðmæti botnfisks var 3,7 milljarðar en var 4,6 milljarðar í janúar 2007 og er samdrátturinn því 18,7%. Verðmæti þorskafla var 1,9 milljarðar og var það samdráttur um 25,1%. Aflaverðmæti ýsu nam 1,1 milljarði, sem er 11,9% aukning, og ufsaaflinn jókst að verðmæti um 9,6%, í 247 milljónir.

Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 10,1%, nam 220 milljónum. Aflaverðmæti uppsjávarafla dróst saman um 18,2% og nam 796 milljónum. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam 321 milljón. Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu var 1,8 milljarðar króna. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam 1 milljarði. Aflaverðmæti sjófrystingar var rúmur milljarður og verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 758 milljónum.

Minni fiskafli

Skýringar á miklum samdrætti aflaverðmætis liggja fyrst og fremst í minni afla. Í janúar í fyrra var heildaraflinn tæp 82.000 tonn en 73.400 tonn nú. Það er um 10% samdráttur en samdrátturinn í verðmætum nú er um 18%. Það bendir til þess að fiskverð hafi verið lægra í janúar nú en í fyrra. Samdrátturinn er ennfremur mestur í þorskinum, verðmestu tegundinni, og skýrist það af þriðjungs niðurskurði á kvóta.

Samdráttur víðast hvar

Sé litið á einstök landsvæði kemur í ljós verulegur samdráttur víðast hvar. Það er aðeins á Vesturlandi og Norðurlandi eystra sem verðmæti landaðs afla eykst. Reyndar er aukningin aðeins ríflega 1%. Það bendir annað hvort til að meira af verðmætari tegundum hafi verið landað þar í janúar nú eða að meiri afli hafi komið þar á land.

Mesta aflaverðmæti skilar sér á land á Suðurnesjum eins og allajafna, 936 milljónir króna. Það er samdráttur um 21,5%. Á höfuðborgarsvæðinu var aflaverðmætið 742 milljónir króna sem er samdráttur um 27,1%. Á Norðurlandi eystra var verðmætið 680 milljónir og jókst það um 1,2%. Aflaverðmæti á Austurlandi var 580 milljónir og þar var samdrátturinn 19%. Á Vesturlandi var landað afla að verðmæti 357 milljónum króna og þar jókst verðmætið um 1,3%. Á Vestfjörðum var aflaverðmæti 235 milljónir króna, sem er 46,6% samdráttur og á Norðurlandi vestra var landað afla að verðmæti 162 milljónum króna. Það er 47,6% samdráttur.

Í hnotskurn
» Verðmæti þorskafla var 1,9 milljarðar og var það samdráttur um 25,1%. Aflaverðmæti ýsu nam 1,1 milljarði, sem er 11,9% aukning, og ufsaaflinn jókst að verðmæti um 9,6%, í 247 milljónir.
» Aflaverðmæti uppsjávarafla dróst saman um 18,2% og nam 796 milljónum. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam 321 milljón.
» Mesta aflaverðmæti skilar sér á land á Suðurnesjum.