Seinkun Maður skoðar módel af Draumfaranum, Boeing 787, sem verksmiðjurnar hafa nú tilkynnt í þrígang að hefji sig seinna til flugs en áætlað var.
Seinkun Maður skoðar módel af Draumfaranum, Boeing 787, sem verksmiðjurnar hafa nú tilkynnt í þrígang að hefji sig seinna til flugs en áætlað var. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkeppnin í smíði flugvéla á milli Boeing- og Airbus-flugvélaverksmiðjanna um hylli flugfélaganna í heiminum er hörð. Hvorug verksmiðjan má við miklum skakkaföllum ef hún á ekki að verða undir í þeirri samkeppni.

Samkeppnin í smíði flugvéla á milli Boeing- og Airbus-flugvélaverksmiðjanna um hylli flugfélaganna í heiminum er hörð. Hvorug verksmiðjan má við miklum skakkaföllum ef hún á ekki að verða undir í þeirri samkeppni. Báðar hafa hins vegar átt við nokkurt mótlæti að stríða á umliðnum misserum og árum. Grétar Júníus Guðmundsson kynnti sér stöðu mála hjá þessum framleiðendum á flugvélamarkaði.

Boeing-flugvélaverksmiðjurnar greindu frá því í síðustu viku að enn ein frestunin yrði á því að þær myndu afhenda fyrstu Draumfara-flugvélarnar, Boeing 787 Dreamliner. Þetta var þriðja frestunin á hinni nýju ofurþotu sem átti að vera svar Boeing-verksmiðjanna við þeim árangri sem Aurbus-flugvélaverksmiðjurnar evrópsku höfðu náð, meðal annars með risaþotunni A-380, stærstu farþegaflugvél í heimi.

Fyrst var greint frá seinkun á afhendingu Draumfarans í september á síðasta ári og var því þá haldið fram að seinkunin mundi verða um þrír mánuðir. Í janúar á þessu ári var aftur greint frá seinkun um aðra þrjá mánuði. Og þriðja seinkunin kom svo í síðustu viku og þá kom fram að seinkunin yrði allt í allt rúmt ár. Upphaflega var gert ráð fyrir því að fyrsta Draumfaravélin yrði afhent í maímánuði næstkomandi, en nú stefnir í að það verði ekki fyrr en á þriðja fjórðungi næsta árs.

Fréttir af bæði Boeing- og Airbus-flugvélaverksmiðjunum á umliðnum mánuðum og misserum hafa snúist mjög um erfiðleika sem þær hafa átt við að stríða. Hvorug verksmiðjan má þó við miklu slíku því mikið er í húfi.

Ódýrari í rekstri

Draumfarinn, 787-Dreamliner, er fyrsta nýja flugvélin frá Boeing-verksmiðjunum frá því 777-vélin kom á markað árið 1994. Hún er léttari en sambærilegar flugvélar og straumlínulagaðri og tekur um 210 til 330 farþega, eftir því hvernig innréttingum verður háttað. Er fullyrt að þetta meðal annars geri að verkum að eldsneytiskostnaður verði um 20% minni en hjá sambærilegum vélum. Auk þess segja verkfræðingar Boeing að þar sem Draumfarinn sé að stórum hluta smíðaður úr sérstaklega styrktum koltrefjaefnum verði viðhaldskostnaður allt að 30% lægri en ella.

Á seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar fór að draga úr sölu á breiðþotu Boeing-verksmiðjanna, 747-400 vélinni, mest vegna aukinnar sölu á A330-200 flugvél Airbus-verksmiðjanna. Stjórnendur Boeing hófu þá þegar að huga að nýrri þotu sem gæti aukið söluna hjá verksmiðjunum og var einkum hugað að þróun tveggja flugvéla, 747X og vél sem fékk heitið Sonic Cruiser. Svo kom 11. september 2001 og viðhorf flugfélaga breyttist. Boeing hætti við þróun á 747X-vélinni þegar Airbus greind frá áætlunum um risaþotuna A380. Hins vegar hélt Boeing áfram með þróun Sonic Cruiser, sem reyndar breyttist og varð að vél sem fékk vinnuheitið 7E7. „E“-ið í vinnuheitinu var á árinu 2005 skipt út fyrir tölustafinn „8“ og þar með var komin 787-vélin, Dreamliner. Það heiti varð niðurstaðan úr samkeppni sem um 500 þúsund manns tóku þátt í.

Í apríl 2004 var greint frá því að japanska flugfélagið All Nippon Airways hefði pantað fyrstu Draumfara-flugvélarnar, samtals 50 að tölu, sem átti að afhenda í næsta mánuði.

Icalandair samdi um kaup á tveimur Draumfaraflugvélum af Boeing-gerð í janúar 2005 og þá var einnig samið um kauprétt á fimm vélum til viðbótar. Í apríl 2006 samdi Icelandair síðan við Boeing um kaup á öðrum tveimur vélum.

Aldrei fleiri pantanir

Draumfarinn var frumsýndur í júlí í fyrra með pomp og prakt vestur í Bandaríkjunum. Þá þegar höfðu verið pantaðar nærri 600 slíkar vélar. Engin ný flugvél í sögunni hafði áður selst eins vel. Nú hafa hins vegar tæplega Draumfarar verið pantaðir fyrir samtals 145 milljarða dollara, um 10.500 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi, miðað við upphaflegt listaverð þotunnar. Það er einnig met í sölu nýrrar flugvélar sem er enn í framleiðslu.

Endurteknar seinkanir á afhendingu Draumfarans hafa komið niður á Boeing-verksmiðjunum. Flugfélög hafa sagt upp samningum sínum við verksmiðjurnar og sum hafa fært sig yfir til keppinautarins Airbus. Vandræðagangurinn hefur einnig komið fram í lækkun á gengi hlutabréfa Boeing á markaði en lækkunin að undanförnu er liðlega 20%.

Haft var eftir stjórnendum Boeing í vefmiðlum erlendra fjölmiðla í síðustu viku að frekari frestun á afhendingu Draumfarans komi ekki til. Og jómfrúarferð vélarinnar verði fyrir lok þessa árs. Þá muni það einnig standast að fyrstu vélarnar verði afhentar viðskiptavinum á þriðja fjórðungi næsta árs. Pat Shanaham, aðstoðarforstjóri Boeing, sem hefur yfirumsjón með framleiðslu Draumfarans, skellti skuldinni vegna erfiðleikanna á undirverktaka á ýmsum sviðum, sem hann sagði ekki hafa skilað af sér á réttum tíma. Þar væri um að ræða allt frá litlum festingum upp í stóra hluta af flugvélabolnum, en töluverður hluti af framleiðslunni fer fram annars staðar en hjá Boeing-verksmiðjunum sjálfum, jafnvel í útlöndum. Það er reyndar nokkuð sem verkalýðs- og stéttarfélög þeirra sem starfa í flugvélaiðnaði hafa kvartað undan.

Vilja skaðabætur

Seinkunin hjá Boeing hefur komið verst við þau flugfélög sem stefndu að því að bjóða upp á nýjar flugleiðir, með meðalstórri flugvél sem tekur um 250 farþega. Það var einmitt ætlun All Nippon-flugfélagsins. Eru stjórnendur þess félags sagðir allt annað en ánægðir með seinkunina á afhendingu flugvélanna. Sagði í tilkynningu frá þeim að farið yrði fram á skaðabætur af hálfu Boeing þegar fyrir lægi hve mikill skaðinn yrði. Svipaða sögu er meðal annars að segja af Qantas-flugfélaginu og Air India. Bæði þessi félög eru sögð ætla að fara fram á skaðabætur. Vandi þeirra flugfélaga sem ætluðu bara að skipta eldri flugvélum út fyrir Draumfarann til að ná fram betri nýtingu úr hverju flugi er væntanlega ekki eins mikill og til að mynda All Nippon. Því er engu að síður haldið fram í frétt á fréttavef Seattle Times dagblaðsins að kostnaður Boeing vegna seinkunarinnar verði að öllum líkindum umtalsverður, þegar allar skaðabótakröfur liggja fyrir.

Svipaður vandi

Vandi Boeing vegna seinkunarinnar á afhendingu Draumfarans er ekki ósvipaður þeim vanda sem Airbus hefur staðið frammi fyrir, vegna seinkunar í framleiðslu á risaþotunni A380. Reyndar hefur félagið einnig átt við ýmis önnur vandamál að stríða sem hafa haft mikil áhrif á fyrirtækið.

Í októbermánuði árið 2006 hafði í þrígang verið greint frá seinkun í framleiðsluferlinu á A380, eins og nú er orðið með Draumfarann hjá Boeing. Seinkanirnar hjá Airbus höfðu í för með sér afpantanir fjölmargra flugfélaga. Og nokkrir af helstu yfirmönnum A380-verkefnisins voru látnir fjúka.

A380-vélin frá Airbus er tveggja hæða og fjögurra hreyfla þota sem tekur yfir 500 farþega. Airbus-verksmiðjurnar hófu þróun á risaþotu í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Markmiðið var að fullkomna það vöruframboð sem verksmiðjurnar bjóða upp á en ekki síður að takast á við Boeing-verksmiðjurnar í samkeppninni á sviði risaþotna, sem Boeing hafði verið allsráðandi á með 747-vélum sínum frá því í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Jómfrúarflug A380 var fyrir réttum þremur árum, hinn 27. apríl 2005, og fyrsta áætlunarflugið var 25. október 2007, er Singapore Airlines flaug á milli Singapúr og Sydney í Ástralíu.

Mikil mannaskipti á toppnum

Haft er eftir einum af fyrrverandi yfirmönnum A380-verkefnisins hjá Airbus á breska fréttavefnum Telegraph , að yfirmenn hjá Boeing hefðu gert nákvæmlega sömu mistök, þegar erfiðleikarnir komu upp með Draumfaravélina, og þeir hjá Airbus hefðu gert þegar þeir voru í svipaðri stöðu með A380. Hann sagði að áætlanir Airbus hefðu verið óraunhæfar. Og í hvert skipti sem það hefði orðið seinkun í framleiðsluferlinu hefðu aðrar óraunhæfar áætlanir verið gerðar. Boeing hefði einnig fallið í þessa gryfju.

Í frétt á fréttavef þýska blaðsins Spiegel er tekið í svipaðan streng og að bæði Boeing og Airbus hafi gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að fela þann vanda sem verksmiðjurnar voru í með framleiðsluna á hinum nýju flugvélum. Segir í fréttinni að þetta hafi verið ákaflega mikill klaufaskapur af hálfu Airbus á sínum tíma en Boeing hafi ekkert af því lært og þess vegna sé Draumfaraverkefnið að breytast að breytast í hálfgerða martröð.

Til viðbótar við þann vanda sem Airbus átti við að glíma vegna seinkana í framleiðslunni á A380-vélinni gerðist það síðastliðið haust að frönsk eftirlitsstofnun ásakaði nokkra af helstu stjórnendum og stærstu hluthöfum móðurfélags Airbus, EADS, um innherjasvik. Þeir áttu að hafa selt mikið af hlutabréfum skömmu áður en vandamál Airbus urðu opinber á sínum tíma. Þeir áttu því að hafa nýtt sér upplýsingar sem aðrir fjárfestar höfðu ekki aðgang að, sem er eðlilega ólöglegt. Fyrstu viðbrögð stjórnenda EADS voru að hafna þessum ásökunum. Nýjustu fréttir af herma að núverandi stjórnendur EADS hafi nú hafið mikla sókn sjálfum sér og fyrrverandi stjórnendum til varnar enda séu ásakanirnar með öllu tilhæfulausar. Hér er talað um fyrrverandi stjórnendur hjá EADS og Airbus, en þeir eru töluverður hópur manna, því erfiðleikarnir hjá flugvélaframleiðandanum hafa haft í för með sér mikil mannaskipti á toppnum.

gretar@mbl.is