Ari Skúlason
Ari Skúlason
Eftir Ara Skúlason: "Nú er svo komið að fjallað er um alla þá sem voguðu sér að kaupa upp eignir í miðborginni, oft í nánu samstarfi við borgaryfirvöld, með vægast sagt vafasömum hætti og þar eru allir settir undir sama hatt."

Einu sinni stóð til að byggja myndarlega upp í miðborginni. Upp úr síðustu aldamótum var mikið rætt um hnignun miðborgar og þá stóð mikil krafa á borgaryfirvöldum að liðka fyrir uppbyggingu. Áhyggjurnar snerust um að miðborgin hefði farið halloka sem verslunarsvæði gagnvart stórum verslunarmiðstöðvum. Þá settu borgaryfirvöld upp einföld markmið; að auka verslun í miðborginni með uppbyggingu hentugs verslunarhúsnæðis, að fjölga íbúum sem aftur myndi auka veltu blómstrandi verslunar, sem aftur myndi geta bætt og aukið þjónustuna. Það þurfti að koma af stað ferli sem yrði fljótt sjálfbært. Einhvern veginn finnst mér núna að þessi markmið hafi týnst.

Stefnan er til í Þróunaráætlun miðborgarinnar

Áherslur borgaryfirvalda voru markvissar á þessum tíma og unnið eftir ítarlegri Þróunaráætlun miðborgar sem var afurð víðtæks samráðs og hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Þremur stofnunum á vegum borgarinnar var falið að vinna að framgangi málsins; Aflvaka hf., Miðborgarstjórn og Skipulagssjóði. Aflvaka var ætlað að vekja áhuga og tryggja samstarf við atvinnulífið í borginni, Miðborgarstjórn og þó einkum framkvæmdastjóra miðborgar var falið að tryggja góð tengsl við bæði íbúa og kaupmenn í miðborginni og Skipulagssjóði var ætlað að vinna að uppkaupum eigna í samstarfi við fyrirtæki sem hefðu áhuga á uppbyggingu á ákveðnum reitum. Þá var einnig um að ræða samstarf við Bílastæðasjóð þar sem það átti við.

Almennur áhugi á endurreisn var ríkjandi

Á þessum tíma ríkti mikið jákvæði gagnvart þessu verkefni og flestir komu að því með bros á vör. Í september 2003 hélt Aflvaki t.d. sýningu í Bankastræti 5 um uppbyggingarmöguleika og ýmsar hugmyndir sem höfðu komið fram í því sambandi. Viðtökur voru framúrskarandi og má nefna að jákvæð fjölmiðlaumfjöllun var um sýninguna alla dagana sem hún stóð yfir.

Á þessum tíma var stefnt markvisst að uppbyggingu á heilum reitum og voru nokkrir reitir valdir sérstaklega í því sambandi. Stefnt var að uppkaupum lóða og húsa, sumt til niðurrifs og endurbyggingar en alltaf lá þó fyrir að hluti húsa á viðkomandi reitum myndi standa áfram í svipaðri notkun og verið hafði. Enda deiliskipulag grundvallað á því að ná sátt milli verndunar húsa og götumyndar og brýnni þörf fyrir uppbyggingu vandaðs húsnæðis fyrir verslun, þjónustu og íbúa.

Uppbyggingartíminn fór framhjá miðborginni

Af einhverjum ástæðum fataðist borgaryfirvöldum flugið. Ákveðið var að leggja Aflvaka og Miðborgarstjórn niður og Skipulagssjóður hefur ekki farið varhluta af sífelldri skipulagsbreytingaþörf ráðamanna borgarinnar. Þarna voru tvær stofnanir lagðar niður án þess að verkefnum þeirra hefði verið komið tryggilega fyrir annars staðar. Ég veit ekki til þess að hafa nokkurn tíma heyrt að fallið hafi verið frá markmiðum um myndarlega uppbyggingu í miðborginni, en það ætti að vera öllum ljóst að hvað uppbyggingu varðar hefur nær ekkert gerst í mörg ár. Frá aldamótum hefur Stjörnubíósreiturinn verið byggður, hús var byggt á Laugavegi 24 og byggt var upp í brunagat á Laugavegi 40. Öll önnur verkefni sem unnið hefur verið að í kringum Laugaveg eru meira og minna frosin. Einhver mesti uppbyggingartími sem um getur í Íslandssögunni fór því rækilega framhjá Laugaveginum, verslunarrými hefur lítið sem ekkert aukist og umhverfið hefur frekar drabbast niður heldur en hitt. Á sama tíma hefur verið byggt mikið af verslunarrými annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, líka í Reykjavík, þannig að hlutur miðborgarinnar hefur ekki batnað mikið. Kaldhæðnislegast af öllu er svo þegar sömu aðilar og harðast hafa barist gegn því að hægt sé að vinna skipulega eftir framtíðarsýn um eflingu lifandi miðborgar mæta til að kvarta undan hreysavæðingu og skilja ekkert í flótta verslana og þjónustu af svæðinu. Hvernig var hægt að ganga svona fram gagnvart hjarta höfuðborgarinnar og eftirsóttasta íbúðasvæði landsins?

Vandinn var að ná í fjárfestana sem nú eru níddir.

Mér finnst þetta sorglegt dæmi um hvernig á ekki að standa að hlutunum. Fyrir nokkrum árum voru byggingaverktakar markvisst hvattir til þess af borgaryfirvöldum að koma til samstarfs um myndarlega uppbyggingu. Margir bitu á agnið, en niðurstaðan er vægast sagt dapurleg í ljósi þeirra háleitum markmiða sem lagt var af stað með. Lítið sem ekkert gengur, en þó hefur verkefninu aldrei verið aflýst formlega. Nú er svo komið að fjallað er um alla þá sem voguðu sér að kaupa upp eignir í miðborginni, oft í nánu samstarfi við borgaryfirvöld, með vægast sagt vafasömum hætti og þar eru allir settir undir sama hatt. Ég hef ekki heyrt borgaryfirvöld gera mikið til þess að koma þessum aðilum til varnar.

Stefnan er til en stefnufestan er engin

Án þess að ég ætli mér að kryfja þetta mál til mergjar held ég að það sé nokkuð ljóst að ómarkviss og reikul vinnubrögð skipulagsyfirvalda í Reykjavík eigi mesta sök. Eftir ítarlega markmiðssetningu, stefnumótun og deiliskipulagsvinnu sem skapaði víðtæka sátt milli verndar og uppbyggingar voru fjölmörg metnaðarfull verkefni sett á blað en hafa aldrei fengið framgang. Mörg þessara verkefna hafa aldrei fengið að sjá dagsljósið og því ekki fengið mat hins almenna borgara. Á sýningu Aflvaka forðum voru sýndar margar hugsanlegar lausnir, sumar algerir draumórar, en þá trúðu menn því líka að hægt væri að ganga áfram veginn. Götukortið er til og einnig áhugi einhverra þeirra sem ekki eru enn of brenndir af hentistefnu og geðþótta. Vantar kannski bara framsýnina og kjarkinn?

Höfundur er forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans og fyrrverandi framkvæmdastjóri Aflvaka hf.