RÍFLEGA helmingur, eða 53% forsvarsmanna fyrirtækja og framkvæmdaaðila sem eiga samskipti við skipulagsyfirvöld sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, telur sveitarfélögin sinna skipulagsmálum illa.

RÍFLEGA helmingur, eða 53% forsvarsmanna fyrirtækja og framkvæmdaaðila sem eiga samskipti við skipulagsyfirvöld sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, telur sveitarfélögin sinna skipulagsmálum illa. Rúmlega fimmtungur, 21%, telur sveitarfélögin sinna málaflokknum vel, en 26% töldu að málaflokknum væri hvorki sinnt vel né illa.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem framkvæmd var af Capacent-Gallup dagana 4.-14. apríl og kynnt verður í dag á ráðstefnu sem haldin er undir yfirskriftinni Skipulag eða stjórnleysi? í tengslum við sýninguna Verk og vit 2008.

Samkvæmt könnuninni kalla sömu aðilar helst eftir heildarsýn, hraðri afgreiðslu og skýrum markmiðum í skipulagsmálum af hálfu sveitarfélaganna.

Athygli vekur að í könnuninni kom einnig fram að tæp 67%, rúmlega tveir af hverjum þremur aðspurðra, telja líklegt að fyrirtæki þeirra komi að gerð nýs atvinnuhúsnæðis á næstu tólf mánuðum. Um 27% svöruðu að gerð nýs atvinnuhúsnæðis væri ólíkleg en 6% að hún væri hvorki né.

„Þetta er staðfesting á því sem maður hefur heyrt að væri viðhorfið á meðal forsvarsmanna fyrirtækja og framkvæmdaaðila til skipulagsmála á svæðinu,“ segir Ari Skúlason, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans. Ari telur það góð tíðindi að verktakar séu bjartsýnir á framkvæmdir á næstu 12 mánuðum.