HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem grunaður er um að hafa tekið þátt í hrottalegri árás á íbúa í húsi við Keilufell í Reykjavík um páskana, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 5. maí.

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem grunaður er um að hafa tekið þátt í hrottalegri árás á íbúa í húsi við Keilufell í Reykjavík um páskana, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 5. maí. Fram kemur í greinargerð lögreglu að einn brotaþola hafi sagst hafa setið í sófa inni í stofu íbúðarinnar þegar hann hafi séð hvar maðurinn stóð í dyrunum og hélt á exi. Hafi hann komið fyrstur til mannanna þar sem þeir sátu í sófanum og slegið til manns þar sem hann lá sofandi.

Í framburði annars brotaþola kom fram að maðurinn hefði reynt að berja hann í höfuðið en hann hefðináð að bera hendurnar fyrir sig. Brotaþolinn hlaut opið beinbrot á vinstri hendi í árásinni og brotnaði einnig á þeirri hægri.

Þriðji brotaþolinn sagðist hafa séð manninn inni í íbúðinni þar sem hann hélt á exi. Brotaþoli hefði svo snúið sér við og þá verið sleginn í höfuðið. Hlaust af því opið sár á höfði sem þurfti að sauma með 12 sporum.

Lögregla segir að símagögn beri með sér að maðurinn hafi verið í stöðugu símasambandi við aðra sakborninga í málinu, fyrir og eftir árásina. Vitni hafi greint frá því að hann hafi fyrstur gengið inn í íbúðina og lýsingar þeirra þyki bera með sér að hann sé höfuðpaur í málinu. Þá beri framburðir brotaþola með sér að maðurinn hafi gengið harkalega fram.