Barátta Eiður Smári Guðjohnsen á hér í höggi við Iago Bouzón í leik Barcelona og Recreativo Huelva.
Barátta Eiður Smári Guðjohnsen á hér í höggi við Iago Bouzón í leik Barcelona og Recreativo Huelva. — AP
MIKIL eftirvænting ríkir hjá knattspyrnuáhugamönnum fyrir undanúrslitin í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu en fyrri leikirnir verða háðir í næstu viku.

MIKIL eftirvænting ríkir hjá knattspyrnuáhugamönnum fyrir undanúrslitin í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu en fyrri leikirnir verða háðir í næstu viku. Á þriðjudag eigast við Liverpool og Chelsea á Anfield en daginn eftir tekur Barcelona á móti Manchester United á Nou Camp. Eiður Smári Guðjohnsen fær þar með aðra tilraun til að komast í úrslit Meistaradeildarinnar en hann var í liði Chelsea fyrir tveimur árum sem féll úr leik fyrir Liverpool.

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is

Ekki munaði nema hársbreidd að Eiður skyti Chelsea í úrslit Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum en skot hans sleikti markstöngina í uppbótartíma í síðari leiknum sem Liverpool hafði betur í, 1:0, eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum á Stamford Bridge.

Morgunblaðið ræddi við Eið Smára um komandi viðureignir og framtíð hans í liði Barcelona en Eiður er nú að enda sitt annað tímabil hjá Katalóníuliðinu en hann er samningsbundinn því til ársins 2010. Eiður var í byrjunarliði Börsunga í leiknum gegn Recreativo Huelva um síðustu helgi en var tekinn af velli um miðjan seinni hálfleik þegar Börsungar voru 2:1 yfir.

Var frekar fúll þegar mér var kippt út af

,,Ég var ánægður með frammistöðu mína í síðasta leik. Ég var frekar fúll þegar mér var kippt út af en Rijkaard talaði við mig í gær og sagðist hafa verið ánægður með minn leik. Hann sagðist hafa ákveðið að setja varnarsinnaðri leikmann inn á í þeirri stöðu sem við vorum í en því miður fengum við á okkur jöfnunarmark,“ sagði Eiður Smári.

Barcelona tekur á móti grönnum sínum í Espanyol í deildinni á laugardag en síðan er komið að leiknum við Manchester United.

Ekkert skrítið að telja United sigurstranglegra

Spurður út í rimmuna við Manchester United sagði Eiður:

,,Auðvitað hefur það sitt að segja formið á liðunum í dag en þegar menn eru komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar þá held ég að það sé bara dagsformið sem skiptir máli. Bæði lið eru með frábæra leikmenn innanborðs og ef þau spila bæði sinn besta leik þá held ég að þetta verði meiriháttar leikir, ekki síst fyrir hlutlausa aðila. Sérstaklega þar sem við höfum verið að hiksta mikið undanfarið í deildinni er það ekkert skrítið að fólk tali um Manchester United sem sigurstranglegra liðið í þessu einvígi en þegar á leikdag er komið þá er þetta spurning um hvernig leikmenn eru stemmdir. Það getur verið ágætt fyrir okkur að vera ekki liðið sem er spáð sigri,“ segir Eiður Smári.

Eiður telur það verri kost að byrja á heimavelli; ,,Ég hefði auðvitað kosið að eiga seinni leikinn á heimavelli. Fyrri leikurinn í svona rimmu ræður heilmiklu en ég hef það á tilfinningunni að úrslitin ráðist ekki í Barcelona heldur í viðureigninni á Old Trafford. Það er algjört lykilatriði fyrir okkur að ná að halda markinu hreinu, með því eigum við alltaf möguleika í seinni leiknum.“

Eiður mætti oft Manchester United þau ár sem hann lék með Chelsea og oftar en ekki hefur honum tekist vel upp á móti ,,rauðu djöflunum“.

Á góðar minningar frá leikjum gegn Manchester United

,,Ég á góðar minningar frá leikjum á móti Manchester United hvort sem það er á Stamford Bridge eða Old Trafford. Ég hef líklega náð að skora fjögur mörk á móti Manchester United í einhverjum sex til sjö leikjum og að mig minnir hafa tvö þeirra komið á Old Trafford. Ég vona bara að ég fái að spreyta mig í þessum leikjum. Manchester-liðið er feikilega gott. Það er vel spilandi og með marga frábæra leikmenn innanborðs og klárlega besta liðið á Englandi í dag. Ég býst við hörkuspennandi leikjum og ég met það svo að við þurfum að spila okkar bestu leiki til að fara áfram. Ég tel það mikinn plús fyrir okkur að fá Messi aftur inn í liðið. Hann er leikmaður sem getur brotið upp leikinn og sprengt varnir andstæðinganna upp á eigin spýtur. Hann getur gefið okkur þann neista fram á við sem hefur vantað. Okkur hefur svo sem gengið vel að skora á tímabilinu en við höfum fengið allt of mörg mörk á okkur.“

Held að það takist loks hjá Chelsea

Hvað heldur þú með rimmu þinna gömlu félaga í Chelsea og Liverpool?

,,Ég hef bara ekki hugmynd um það en einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að það takist loksins hjá Chelsea að slá Liverpool út. Einhvern tímann kemur að því og eigum við ekki bara að segja að það gerist núna. Það er hins vegar virðingarvert að sjá Liverpool þarna enn einu sinni miðað við frekar slakt gengi í deildinni. Einhvern veginn ná þeir að stilla sig vel inn á Meistaradeildina og Liverpool er lið sem kann að nýta sér það að spila heima og að heiman.“

Skoða alla möguleika í sumar

Þannig að þínir villtustu draumar eru þá þeir að Barcelona og Chelsea mætist í úrslitum?

,,Já, eigum við ekki að segja það en ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt ennþá. Auðvitað yrði það meiriháttar gaman að mæta Chelsea í úrslitum í Moskvu.“

Hvað segir þú um framtíð þína hjá Barcelona? ,,Ég er ekkert farinn að spá í það. Maður hefur það á tilfinningunni að það sé mikið að fara að gerast hjá Barcelona í sumar og að margir leikmenn fari og aðrir komi í staðinn. Ég hef lítið verið að velta mér upp úr þessu. Nú einbeiti ég mér bara að því sem eftir er hjá Barcelona á þessu tímabili og skoða svo alla kosti og valmöguleika sem upp koma í sumar og tek ákvörðun út frá því. Þetta er ekki eitthvað sem maður ákveður einn, tveir og þrír heldur þarf maður að hugsa sig vel. Ég veit ekkert hvað verður með þjálfarann en mér sýnist að það séu ákveðin kaflaskipti framundan hjá liðinu en það mun ekki skýrast fyrr en í sumar. Það fer mikið eftir því hvernig tímabilið endar hjá okkur. Við eigum enn möguleika á Evrópumeistaratitlinum og þó svo að staðan í deildinni sé ekki allt of góð þá geta hlutirnir verið fljótir að breytast og við eigum eftir að mæta Real Madrid,“ segir Eiður.

Nú hafa komið fréttir um að Ronaldinho fari í sumar. Þið hafið verið í góðu sambandi og er það rétt að hann sé förum?

,,Það er ekkert komið á hreint með það. Þessar yfirlýsingar sem hafa komið í fjölmiðlum hér úti um að allt sé klappað og klárt með hann og AC Milan tek ég með smá fyrirvara en mér finnst nú samt allt benda til þess að hann fari.“