Óréttlæti Ekki er réttlátt að einkaháskólar, sem innheimta skólagjöld, fái jafnhá framlög frá ríkinu og opinberir háskólar, að mati Kolbrúnar.
Óréttlæti Ekki er réttlátt að einkaháskólar, sem innheimta skólagjöld, fái jafnhá framlög frá ríkinu og opinberir háskólar, að mati Kolbrúnar. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
ÞAÐ ER ekki stefna Samfylkingarinnar að tekin verði upp skólagjöld við opinbera háskóla, að því er fram kom í máli þingmanna flokksins á Alþingi í gær.

ÞAÐ ER ekki stefna Samfylkingarinnar að tekin verði upp skólagjöld við opinbera háskóla, að því er fram kom í máli þingmanna flokksins á Alþingi í gær. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, hóf máls á þessu og vísaði annars vegar til ummæla Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, í Fréttablaðinu um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær slík gjöld yrðu tekin upp og hins vegar til ummæla varaformanns nefndarinnar, Einars Más Sigurðarsonar, um að hann hefði ekki mælistiku á það hvort stuðningur við upptöku skólagjalda í háskólum hafi aukist í Samfylkingunni.

Er ekki 100% jafnrétti

Einar svaraði því til á þingi í gær að skoða ætti fordómalaust hvaða leiðir væri best að fara til að tryggja jafnstöðu háskóla hér á landi. „Lykilatriðið í þeirri umræðu er að jafnstaðan sé tryggð og jafnrétti til náms sé tryggt. Ég vil leyfa mér að segja að því miður er ekki 100% jafnrétti til náms í dag vegna þess að við tökum skólagjöld nokkuð óskipulega í okkar kerfi,“ sagði Einar og tók gjaldtöku af nemendum í listnámi á háskólastigi sem dæmi.

Sigurður Kári fullyrti hins vegar að upptaka skólagjalda í opinberum háskólum nyti aukins stuðnings í samfélaginu, m.a. vegna markmiða Háskóla Íslands um að vera meðal bestu skóla heims. Undantekningin væri kannski vinstri græn, sem sæju skrattann í öllum hornum. „Langflestir þeirra háskóla sem eru í hópi þeirra 100 bestu innheimta skólagjöld og menn verða bara að horfast í augu við það,“ sagði Sigurður Kári.

Framsókn var á bremsunni

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði sinn flokk hafa verið á bremsunni gagnvart Sjálfstæðisflokknum í fyrra ríkisstjórnarsamstarfi hvað upptöku skólagjalda varðaði og að það væru vonbrigði að Einar Már gæti ekki sagt skýrt að slíkt kæmi ekki til greina. „Öðruvísi mér áður brá, hæstvirtur forseti, og það skyldi þó ekki vera þannig að nú gæti Sjálfstæðisflokkurinn gert það með Samfylkingunni í menntamálum sem ekki var hægt með Framsóknarflokknum á sínum tíma; að nú eigi hugsanlega að innleiða skólagjöld við opinbera háskóla,“ sagði Birkir en þingmenn Samfylkingarinnar áréttuðu hins vegar stefnu síns flokks um að ekki ætti að taka upp skólagjöld í grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla. „Við þetta verður að sjálfsögðu staðið,“ sagði Katrín Júlíusdóttir.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vildi hins vegar skýrari aðgerðir enda hefði ójafnræði milli háskóla aukist vegna stefnu Sjálfstæðisflokksins. „Það ójafnræði er þannig til komið að einkaháskólarnir fá að taka skólagjöld ofan á full framlög hins opinbera með hverjum nemanda. Sambærilegir skólar á Norðurlöndunum skerða að sjálfsögðu hið opinbera framlag sem nemur þeim skólagjöldum sem tekin eru,“ sagði Kolbrún og vildi að sú leið væri farin hér á landi.