Þykjustuleikur Grétar Mar Jónsson vandaði vísindamönnum Hafró ekki kveðjurnar á þingi í gær og kallaði þá þykjustuvísindamenn.
Þykjustuleikur Grétar Mar Jónsson vandaði vísindamönnum Hafró ekki kveðjurnar á þingi í gær og kallaði þá þykjustuvísindamenn. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
VORRALL Hafrannsóknastofnunar færir ekki mikil tíðindi en vekur þó vonarneista um að hlutir þokist í rétta átt. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær. Guðjón A.

VORRALL Hafrannsóknastofnunar færir ekki mikil tíðindi en vekur þó vonarneista um að hlutir þokist í rétta átt. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, var málshefjandi en hann sagði ljóst af gögnum úr togararallinu að þorskurinn væri vel á sig kominn og að stærri fiskur væri kominn inn á miðin. Aflabrögð væru því mikil. „Þetta vita fiskimenn og þetta þykja góðar vísbendingar,“ sagði Guðjón og botnaði því lítið í niðurstöðum fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar (Hafró) sem haldi því fram að þorskaflinn þurfi að vera óbreyttur a.m.k. næstu fimm árin. „Ég er ekki viss um að nokkur fiskimaður á vertíðarsvæðunum sé sammála þessu mati.“

Guðjón kallaði eftir endurmati á stærð þorskstofnsins til að koma í veg fyrir sóun verðmæta og sagðist jafnframt óttast það mjög að á komandi vikum og mánuðum muni brottkast aukast gífurlega. „Ég dreg þá ályktun af því að aflinn er góður og veiðiheimildir eru að snarminnka,“ sagði Guðjón.

Einar K. Guðfinnsson sagði hins vegar togararallið ekki færa mikil tíðindi en að í því væru þó vísbendingar í rétta átt. M.a. virtist þyngdaraukning hafa átt sér stað í þorskstofninum en undanfarin ár hefur hann lést. Þá væru vísbendingar um að hrygningarstofninn sé að stækka.

17. júní manntal

Miklar umræður spunnust um trúverðugleika Hafró og kölluðu sumir þingmenn eftir nákvæmari hafrannsóknum. Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði vorrallið jafngilda „17. júní manntali“ hér á landi sem færi þá þannig fram að mannfjöldinn væri talinn á þjóðhátíðardaginn ár hvert og út frá því ákvarðaður heildarmannfjöldi landsins. „Það fer síðan eftir veðurfari og tíðarfari hversu margir Íslendingar eru,“ sagði Björn og áréttaði að margt hefði áhrif á aflann í sjónum.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist telja að byggja ætti upp vísindaþekkingu á sjávarútvegsmálum innan háskólasamfélagsins. Þannig mætti veita Hafró aðhald sem væri nauðsynlegt til að fá betri og öruggari niðurstöður í hafrannsóknum.

Þykjustuvísindi

Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslyndra, tók öllu dýpra á árinni, kallaði vísindamenn Hafró þykjustuvísindamenn og sagði vinnubrögð þeirra ekki njóta trausts.

Sjávarútvegsráðherra var ekki sáttur við þessi ummæli Grétars og vildi að hann drægi þau til baka. Menn gætu haft sínar skoðanir og gagnrýnt Hafró en að ekki væri sæmandi að kalla „þá vísindamenn sem þar starfa, menn sem hafa margra ára nám að baki, menn sem hafa starfað með sjómönnum árum og áratugum saman“ þykjustuvísindamenn.