Sigurður Ari Stefánsson átti stórleik og skoraði 10 mörk þegar Elverum , undir stjórn Axels Stefánssonar , vann góðan sigur á Runar , 33:28, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitunum um norska meistaratitilinn í handknattleik í gærkvöld.
Sigurður Ari Stefánsson átti stórleik og skoraði 10 mörk þegar Elverum , undir stjórn Axels Stefánssonar , vann góðan sigur á Runar , 33:28, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitunum um norska meistaratitilinn í handknattleik í gærkvöld. Sigurður skoraði 7 mörk í fyrri hálfleiknum en þá var Elverum undir, 14:16. Ingimundur Ingimundarson skoraði eitt marka liðsins. Liðin mætast aftur á heimavelli Runar um næstu helgi en það sem sigrar samanlagt kemst í undanúrslitin.

Ólafur Stefánsson skoraði 4 mörk fyrir Ciudad Real í gærkvöld þegar lið hans vann öruggan sigur á Antequera , 30:22, í átta liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í handknattleik. Ciudad Real mætir Arrate í undanúrslitum en Arrate vann Sigfús Sigurðsson og félaga í Ademar León örugglega í gærkvöld, 34:26. Sigfús náði ekki að skora fyrir Ademar en var rekinn tvisvar af velli.

Hreiðar Levy Guðmundsson landsliðsmarkvörður var besti maður Sävehof í gærkvöld en það dugði ekki til því lið hans tapaði á heimavelli, 25:29, fyrir Ystad í þriðja leik liðanna í undanúrslitunum um sænska meistaratitilinn í handknattleik. Sävehof var með 2:0 forystu í einvíginu og hefði með sigri verið komið í úrslit en Ystad fær nú tækifæri til að laga stöðuna á sínum heimavelli. Erik Fritzon skoraði 7 mörk fyrir Sävehof en Oscar Carlén 8 mörk fyrir Ystad.

Eyjamenn lögðu Aftureldingu , 31:29, í uppgjöri neðstu liða úrvalsdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í gærkvöld. Mikil spenna var í lokin, Afturelding var með sjö útispilara gegn fjórum leikmönnum ÍBV í síðustu sókninni og freistaði þess að jafna en í staðinn náðu Eyjamenn boltanum og skoruðu. Nikolaj Kulikov skoraði 7 mörk fyrir ÍBV og Oliver Kiss átti stórleik í marki Aftureldingar.

Lærisveinar Sigurðar Jónssonar í Djurgården eru aftur á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir jafntefli, 1:1, við Örebro á útivelli í gærkvöld. Sölvi Geir Ottesen lék allan leikinn með Djurgården. Nýliðar Norrköping töpuðu 1:3 fyrir Halmstad á heimavelli og eru enn án sigurs. Garðar B. Gunnlaugsson kom inná sem varamaður hjá Norrköping á lokamínútunum en Gunnar Þór Gunnarsson sat á varamannabekk liðsins allan tímann.

Árni Gautur Arason markvörður mátti þola sitt annað tap í jafnmörgum leikjum með Thanda Royal Zulu í suður-afrísku knattspyrnunni í gær. Lið hans sótti þá heim Mamelodi Sundowns og tapaði, 2:0. Thanda er áfram í þriðja neðsta sæti deildarinnar þegar sex umferðum er ólokið, þremur stigum frá fallsæti.