Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is Séu laun kynjanna skoðuð eftir starfsstéttum sést að konur voru með 18-57 prósentum lægri heildarlaun (þ.e. laun og óreglubundnar greiðslur) en karlar í sömu stétt í fyrra, skv.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

Séu laun kynjanna skoðuð eftir starfsstéttum sést að konur voru með 18-57 prósentum lægri heildarlaun (þ.e. laun og óreglubundnar greiðslur) en karlar í sömu stétt í fyrra, skv. upplýsingum frá Hagstofunni. Munar 15-52% séu eingöngu skoðuð reglubundin laun.

Heimilisstörfin íþyngja konum

„Launamunurinn getur að hluta til helgast af því að meðalvinnutími karla er lengri en vinnutími kvenna, en það endurspeglar líka ójafna verkaskiptingu á heimilum. Þar sem konur bera almennt meiri ábyrgð á ólaunuðum störfum innan heimilisins vinna þær minna úti en karlar, þó ekki muni miklu. Langur vinnutími karla fleytir þeim svo upp í hærri laun og viðheldur þannig ójafnri verkaskiptingu á heimilunum,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir félagsfræðingur.

Sérfræðingarnir áberandi

„Í tölum Hagstofunnar er kynbundinn launamunur sérlega áberandi hjá sérfræðingum, stjórnendum og sérmenntuðu starfsfólki. Við höfum áður séð að háskólamenntun skilar sér betur í launaumslag karla en kvenna sem er

háalvarlegt mál,“ segir Guðbjörg og bætir við að mikilvægt sé að rannsaka hvaða öfl séu þar að baki.

Hún segir líklegt að konur og karlar í hópi stjórnenda vinni í mismunandi atvinnugreinum. „Konur komast síður í stöðu æðstu stjórnenda en karlar og það er nokkuð ljóst að kvenstjórnendur tilheyra ekki þeim hópi stjórnenda sem fá ofurlaun. Kannski eru þær síður ráðnar í slík störf en mögulega þykja konur líka síður þurfa ofurlaun en karlar.

Hluti kvenstjórnenda er stjórnendur í svokölluðum hefðbundnum kvennastörfum, t.d. í heilbrigðisgeiranum, en það er þekkt að launin eru almennt lægri hjá starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta en í hefðbundnum karlastéttum,“ segir hún.

Væntingar ólíkar eftir kyni

Þá segir Guðbjörg konur oft eiga erfiðara með að semja um laun því atvinnurekendur hafi ólíkar væntingar til starfsmanna eftir kyni.

„Þær hafa lítið að gera með raunverulega getu eða vilja viðkomandi einstaklinga heldur endurspegla þær staðalmyndir kynjanna. Litið er á karlmenn sem fyrirvinnur, sem þurfi þar af leiðandi góð laun á meðan litið er á konur sem annars flokks fyrirvinnur, sem sé að hluta til framfleytt af körlum.“

Þá segir Guðbjörg barneignir og hjónaband oft talið körlum til tekna en ekki konum. „Þessi viðhorf valda því að karlmenn fá oftar en konur aukasporslur, óháð raunverulegum vinnutíma, frammistöðu og getu.“

Hvað vantar upp á?

Í hnotskurn
Heildarlaun Íslendinga, s.s. laun og aðrar greiðslur fyrir utan kaupréttarsamninga, í fullri vinnu voru að meðaltali 424.000 á mánuði. Voru heildarlaun karla í fullu starfi 467.000 að meðaltali og laun kvenna 332.000. Meðal-Íslendingurinn vann 44,8 stundir á viku. Unnu konur 41,8 stundir á viku en karlar 46,1 stund.