Frá Hallgrími Guðmundssyni: "EITT er það sem vakið hefur undrun eftir að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kvað upp úrskurð sinn um fiskveiðistjórnunarkerfið (kvótakerfið)."

EITT er það sem vakið hefur undrun eftir að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kvað upp úrskurð sinn um fiskveiðistjórnunarkerfið (kvótakerfið). Ekki rekur okkur í samtökunum minni til að bæjar- og eða sveitarstjórnir á Íslandi hafi skorað á stjórnvöld að bregðast við og virða álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Er bæjar- og sveitarstjórnum landsins slétt sama um að úrskurður af þessu tagi sé felldur á íslenska ríkið? Er engin ástæða fyrir stjórnir bæjar- og sveitarfélaga þessa lands að bregðast við og skora á stjórnvöld að virða mannréttindi þegna sinna?

Við verðum að spyrja, eru stjórnir bæjar- og sveitarfélaga að styðja áframhaldandi mannréttindabrot með þögn sinni? Ef bæjar- og sveitarstjórnir svara þessu neitandi og segjast ekki styðja mannréttindabrot, væri þá ekki í lófa lagið fyrir þessar stjórnir að stíga það heillaspor að skora á stjórnvöld opinberlega að virða úrskurð nefndarinnar og bregðast við hið fyrsta?

Það er engu líkara en sofa eigi Þyrnirósarsvefninum góða þangað til nákvæmlega öll starfsemi í bæjum landsins deyr út og hvað þá? Á þá að hringja grenjandi til stjórnvalda betlandi ölmusu sér til handa, þeirra sömu stjórnvalda og drápu niður sjávarþorpin með mannréttindabrotum?

Við bara spyrjum, hvað er orðið að í þessu landi, er öllum sama hvernig er verið að fara með landsbyggðina? Nógu mörg eru vandamálin sem er verið að glíma við á höfuðborgarsvæðinu í dag þótt við bætum ekki landsbyggðinni við, þegar allir flýja þangað eftir að búið verður að drepa allt niður út á landsbyggðinni.

Það er nú einu sinn hrár veruleikinn að við lifum ekki á góðum vegum, góðu netsambandi og málandi hver fyrir annan einu saman. Ekki plöntum við álverum í hverju sveitarfélagi. Það þarf að framleiða eitthvað líka, það þarf engan hagfræðing til að segja okkur það. Leyfið okkur að gera það sem við gerðum, það er að veiða fisk þannig urðu þessir bæir til.

Það er hér með skorað á bæjar- og sveitarstjórnir að láta í sér heyra, annað er þeim varla til sóma.

HALLGRÍMUR

GUÐMUNDSSON,

formaður Framtíðar FSSS.

Frá Hallgrími Guðmundssyni