Frá Guðrúnu Ingibjörgu Þorgeirsdóttur: "HINN 9. apríl síðastliðinn var sendur út um kvöld þátturinn Kiljan. Þættinum er stýrt af þeim ágæta manni Agli Helgasyni, og ferst honum starfið yfirleitt prýðisvel úr hendi. En í áðurnefndum þætti urðu honum á leið mistök."

HINN 9. apríl síðastliðinn var sendur út um kvöld þátturinn Kiljan. Þættinum er stýrt af þeim ágæta manni Agli Helgasyni, og ferst honum starfið yfirleitt prýðisvel úr hendi. En í áðurnefndum þætti urðu honum á leið mistök. Í umræðum um bókina Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson sagði Egill meðal annars:

„...unglingar eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.“

Undirrituð verður að játa, að henni féllust hendur yfir þessum orðum sem Egill leyfir sér að senda inn á heimili allra landsmanna. Lýsa þau ekki einungis kæruleysi og barnaskap, heldur eru einnig særandi og meiðandi fyrir stóran, virkan og fullgildan hugsandi hóp samfélagsins.

Máli þessu til glöggvunar má setja aðra þjóðfélagshópa inn í setningu Egils, í stað „unglinga“:

Kennarar eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.

Aldraðir eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.

Fimmtugir eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.

Bankastjórar eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.

Mæður eru náttúrlega mjög vitlausar almennt.

Skýrt sést á þessum dæmum, að orð Egils eiga engan rétt á sér, og fer undirrituð hér með formlega fram á að Egill biðjist opinberlega afsökunar á orðum sínum.

Sú leiðinlega þróun hefur orðið í samfélaginu, að nær eingöngu er fjallað um unglinga á neikvæðan hátt. Þeir spreyja á veggi, eru latir, hirðulausir. Þeir í stuttu máli eyðileggja, brjóta og bramla það sem þeir komast með krumlurnar í. Síðan stynjum við, tautum: „Og þetta á að erfa landið.“ Sjaldan er fjallað um unglinga sem heilbrigt, ungt fólk er ber ekki aðeins hag sinn fyrir brjósti, heldur landa sinna einnig, og sýnir það jafnt í vilja sem verki.

Svo virðist sem veiðileyfi hafi verið gefið út á unglinga, og fólk áttar sig því kannski ekki alltaf á þunga þeirra orða er það lætur falla um þennan hóp fólks, grínast jafnvel með alvarlegustu málefni. Slíkt á ekki að líðast í sjónvarpi.

GUÐRÚN INGIBJÖRG

ÞORGEIRSDÓTTIR, nemandi í níunda bekk við Hagaskóla.

Frá Guðrúnu Ingibjörgu Þorgeirsdóttur