Skemmtigarður Undirritaður hefur verið samningur um afnot af landspildu í Gufunesi. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri stendur á milli hjónanna Eyþórs Guðjónssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, eigenda Fjöreflis.
Skemmtigarður Undirritaður hefur verið samningur um afnot af landspildu í Gufunesi. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri stendur á milli hjónanna Eyþórs Guðjónssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur, eigenda Fjöreflis. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
„ÞETTA er langþráður samningur enda hefur hann verið þrjú ár í undirbúningi,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Fjöreflis ehf.

„ÞETTA er langþráður samningur enda hefur hann verið þrjú ár í undirbúningi,“ segir Eyþór Guðjónsson, framkvæmdastjóri Fjöreflis ehf., sem í gær undirritaði samning við Reykjavíkurborg um afnot af landspildu í Gufunesi til að koma upp afþreyingar- og þjónustumiðstöð. „Markmið þessa samnings er að lyfta afþreyingarmöguleikum landsmanna upp á annað og hærra plan. Hugmyndin er sú að skapa þarna afþreyingargarð þar sem allir aldurshópar geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Eyþór og bendir á að Fjörefli ehf. hyggist starfrækja ýmiss konar afþreyingarstarfsemi í Gufunesinu svo sem hópefli, heilsurækt og skemmtun fyrir fyrirtæki, félagasamtök, skóla og einstaklinga á öllum aldri jafnt utan sem innandyra. „Þarna verða strandblaksvellir, hjólabrettabrautir, þrautabrautir, fótboltavellir, frisbí- og klifurvellir. Einnig er fyrirhuguð æfingaaðstaða fyrir golfáhugamenn bæði innan- sem utandyra,“ segir Eyþór og leggur mikla áherslu á að garðurinn eigi að nýtast jafnt borgarbúum, landsbyggðinni og erlendum ferðamönnum sem leið eigi um landið. „Garðurinn gerir Reykjavík þannig t.d. skemmtilegri heim að sækja.“

Opnaður strax í sumar

Að sögn Eyþórs verður á næstu vikum farið í það af krafti að hanna nýja afþreyingargarðinn og er stefnt að því að opna hluta hans strax í sumar. Aðspurður segir hann stefnt að því að garðurinn geti, þegar hann verði fullbúinn, tekið á móti tugum þúsunda gesta á ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur rekið frístundamiðstöðina Gufunesbæ frá árinu 1998. Vettvangur starfsemi Gufunesbæjar er frítími allra Grafarvogsbúa, en megináherslan er lögð á barna- og unglingastarf. Áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytt og áhugavert frístundastarf en Gufunesbær hefur m.a. umsjón með öllum sjö félagsmiðstöðvunum í Grafarvogi og átta frístundaheimilum við alla grunnskóla í Grafarvogi.

Að mati Eyþórs eru aðstæður í Gufunesi mjög góðar til iðkunar útivistar. Á svæðinu er m.a. gamli bóndabærinn, hlaðan og súrheysturninn sem nýttur er til veggjaklifurs og auk þess er golfvöllur á túnunum við Gufunesbæinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg telja forsvarsmenn þar að með samningnum við Fjörefli muni útivistarstarfsemi á svæðinu eflast til muna og fjölbreyttari valkostir verða í boði fyrir alla aldurshópa.

Samningurinn sem undirritaður var í gær er tímabundinn og gildir í 15 ár. Upphaf afnotatíma er 1. janúar 2008 og lok er 31. desember 2023. Við lok leigutíma framlengist samningurinn sjálfkrafa í tíu ár í senn nema landeigandi eða afnotahafi tilkynni um breytingu þar á.