Skin og skúrir Gunnar Einarsson og Arnar Freyr Jónsson átti flottan leik í gær en ÍR-ingurinn Hreggviður Magnússon náði sér ekki á strik og fylgist hér með Arnari Frey, ásamt Tahirou Sani, leggja boltann í körfuna.
Skin og skúrir Gunnar Einarsson og Arnar Freyr Jónsson átti flottan leik í gær en ÍR-ingurinn Hreggviður Magnússon náði sér ekki á strik og fylgist hér með Arnari Frey, ásamt Tahirou Sani, leggja boltann í körfuna. — Ljósmynd/Jón Björn Ólafsson
KEFLVÍKINGAR leika til úrslita í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Liðið lagði ÍR 93:73 í oddaleik liðanna í undanúrslitunum í gær fyrir fullu húsi áhorfenda í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ.

KEFLVÍKINGAR leika til úrslita í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Liðið lagði ÍR 93:73 í oddaleik liðanna í undanúrslitunum í gær fyrir fullu húsi áhorfenda í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ. Mikil stemning var á áhorfendabekkjunum en Keflvíkingar höfðu undirtökin á vellinum þannig að leikurinn varð aldrei spennandi. En áhorfendur skemmtu sér engu að síður hið besta. Endurkoma Keflvíkinga er einsdæmi í sögu körfunnar en þeir eru fyrstir til að komast í úrslit eftir að hafa lent 2:0 undir. Keflvíkingar viðhéldu einnig hefðinni varðandi Suðurnesjalið í úrslitum en lið þaðan hefur alltaf verið í úrslitum frá því úrslitakeppnin hófst 1984.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Keflavík hafði fjögurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta en vann þann næsta 23:13 eftir að ÍR reyndi svæðisvörn um tíma en gafst fljótlega upp á henni. Keflavíkurliðið leit mun betur út í alla staði. Boltinn gekk hratt milli manna í sókninni og gríðarleg barátta var í leikmönnum í fráköstum. Þegar einhver „hitnaði“ í sókninni var leitað til hans og að þessu sinni var það Gunnar Einarsson sem var sjóðheitur. Hann gerði 23 stig, hitti úr fimm af sex þriggja stiga skotum sínum, úr fjórum af sex tveggja stiga skotum en nýtti ekki eina vítaskotið sem hann fékk. Arnar Freyr Jónsson átti einnig flottan leik, gríðarlega snöggur leikmaður sem erfitt er að ráða við á degi sem þessum.

Miklu munaði fyrir ÍR-inga að Hreggviður Magnússon, einn máttarstólpa liðsins, náði sér engan vegin á strik í gærkvöldi og í þriðja leikhluta lék hann aðeins síðustu tvær mínúturnar.

Flottur kafli Keflvíkinga

Keflavík var 69:61 yfir eftir þriðja leikhluta og ÍR gerði fyrsta stig þess fjórða. En þá var ballið búið. því Keflavík gerði 19 stig í röð og var Gunnar iðinn á þessum kafla. Næstu stig ÍR komu ekki fyrr en 2,35 mínútur voru eftir af leiknum og hann í raun búinn, staðan þá 88:62.

Eins og áður segir komst ÍR í 2:0 með fræknum sigri í Keflavík í fyrsta leik og síðan í Seljaskóla í næsta leik. En þeim tókst ekki að fylgja þessum sigrum eftir og svíður það væntanlega. „Þetta er mjög svekkjandi. Við komum hingað alveg sannfæðir um að við gætum unnið hér eins og við gerðum í fyrsta leiknum,“ sagði Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR, eftir leikinn.

„Við erum með þannig lið að margt þarf að smella saman hjá okkur sem sést kannski vel á því að við töpuðum fleiri leikjum en við unnum í vetur. Það sést því að það eru gallar í þessu hjá okkur, en ég held að ÍR geti horft til framtíðarinnar björtum augum. Það eru margir menn í liðinu sem fengu mikla reynslu út úr þessu enda erum við með íslenska leikmenn í lykilhlutverkum hjá okkur. Þeir eru reynslunni ríkari og verða ennþá sterkari að ári,“ sagði Jón Arnar.

Erum hundfúlir

Spurður hvort liðið geti samt ekki verið ánægt með heildarútkomuna í vetur. Liðið endaði í sjöunda sæti, komst í undanúrslit með því að vinna KR og tapar fyrir deildarmeisturum Keflavíkur í oddaleik. „Auðvitað erum við hundfúlir, en ef maður horfir yfir þetta í heild þá lékum við tvö efstu liðin í úrslitakeppninni og höfum veitt þeim verðunga keppni með því að vinna Keflavík á útivelli og KR tvisvar á útivelli. Það sýnir að það býr margt gott í þessu liði,“ sagði þjálfarinn.

Hann sagði að ekki hefði náðst það besta út úr liðsheildinni að þessu sinni. „Við byggjum leik okkar á liðsheildinni og náðum bara ekki að ná því besta út úr henni í kvöld. Einvígið byrjaði vel en síðan snerist þetta í þannig leik sem hentar Keflavík betur og við náðum ekki að snúa því við þannig að við næðum að ráða ferðinni,“ sagði Jón Arnar.

Stoltur af liðinu

Eiríkur Önundarson átti góðan leik í gær fyrir ÍR og var að vonum svekktur þegar hann gekk af velli. „Þetta er gríðarlega svekkjandi. Við erum búnir að vera dálítið rokkandi í vetur og höfum sýnt að við getum unnið alla – en því miður líka tapað fyrir öllum. Ég held að það sé verið að setja saman nokkuð heilsteypt lið hjá okkur og við vorum ansi hreint nálægt því að komast einu skrefi lengra núna. En því miður náðum við ekki að sýna okkar rétta andlit í síðustu þremur leikjum okkar.

Það var sérstaklega svekkjandi að ná ekki að sýna sparihliðina á heimavelli, en þar var okkar helsta von um að slá Keflavík út. Þeir eru með gott lið og mikla reynslu og vanir að vera í þessari stöðu. Þetta varð því orðið ansi erfitt eftir að við töpuðum á heimavelli en þetta fer í reynslubankann hjá strákunum og ég er gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Eiríkur.