Vísitölur Hreyfast þær í takt við eignirnar?
Vísitölur Hreyfast þær í takt við eignirnar? — Reuters
MARKAÐIR með skuldatryggingar hafa heldur betur komið aftan að skapara sínum, fjármálageiranum. Vísitölur sem fylgja þeim mörkuðum þykja sumar hverjar hafa tekið á sig mynd ófreskju Frankenstein.

MARKAÐIR með skuldatryggingar hafa heldur betur komið aftan að skapara sínum, fjármálageiranum. Vísitölur sem fylgja þeim mörkuðum þykja sumar hverjar hafa tekið á sig mynd ófreskju Frankenstein. Þetta hefur fréttaveitan Bloomberg eftir greinendum bandaríska bankans Wachovia. Skiptasamningar sem þessir hafa reynst Wall Street dýrkeypt lexía nú þegar 245 milljarðar dala hafa tapast í tengslum við slíka gjörninga.

Í stað þess að dreifa áhættu og draga úr lántökukostnaði, líkt og Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, spáði hafa þeir kynt undir lánsfjárkreppunni. Það sem átti að verja lánveitendur gegn vanskilum spann af sér 45 milljarða dala skuldabréfa- og lánamarkað. Enginn veit hve mikið er í húfi og spákaupmenn sem veðjuðu á minnkandi lánagæði þrýstu nákvæmlega þeirri niðurstöðu fram í dagsljósið.

Vísitölur úr tengslum við markað

JP Morgan kom skuldatryggingamarkaðnum á fót árið 1994, ásamt öðrum bönkum, í því skyni að bjóða lánveitendum vernd gegn áhættu. Kaupandi skuldatrygginganna fær þá nafnvirði bréfanna, sem liggja að baki hvers samnings, í sinn hlut, ef lánþeginn skyldi ekki standa við skuldbindingar sínar með einhverjum hætti. Nú er svo komið að bankar neita að viðurkenna nýjar vísitölur af fyrrgreindu tagi, sem mæla allt frá bílalánum yfir í húsnæðislán víða að úr Evrópu, samkvæmt heimildum frá vísitöluveitunni Markit.

„Viðskipti með þessar vísitölur eru allt að því sjálfbærar, algjörlega úr tengslum við lausafjármarkaðinn sem ætti að liggja að baki enda er hann ekki til lengur,“ var haft eftir Jacques Aigrain, framkvæmdastjóra Swiss Reinsurance, á tryggingaráðstefnu í Dubai í marsmánuði.

Sjálfbær skuldatryggingamarkaður er svo sem ekki ókunnur þeim sem hafa kynnt sér tengsl íslensku bankanna og skuldatryggingarálags þeirra, sem þykir hafa hækkað úr hófi við efnahaginn.

Í janúar afskrifaði Wachovia 600 milljónir dala af lánum sem lækkuðu í verði samkvæmt CMBX-vísitölum, vísitölum sem mæla skuldabréfaafleiður af lánum á hvers kyns húsnæði, skrifstofum og búðarkringlum. Citigroup, eignamesti banki Bandaríkjanna, afskrifaði 18,1 milljarð dala af ótryggum húsnæðislánum eftir að hafa miðað við sambærilegar vísitölur, svokallaðar ABX.

Hvernig er hægt að skella skuldinni á vísitölurnar? Endurskoðunarreglur gera kröfu til fyrirtækja að meta virði eigna sem hreyfast lítið og að gera grein fyrir breytingum í formi óúttekins gróða eða taps. Þegar uppgefið verð er ekki fáanlegt þurfa fyrirtækin að beita öðrum mælingum, svo sem skuldatryggingavísitölum.

Því má segja að skaðinn á Wall Street sé öllu verri af völdum ABX-vísitalnanna, sem hver mælir 20 skuldabréfum af öllum þeim þúsundum sem eru byggð á hinum frægu ótryggu bandarísku húsnæðislánum. ABX er helsta viðmiðið á þessum markaði sem leiddi til afskrifta banka og lánafyrirtækja vegna slíkrar fjármögnunar.

Er raunverulegt gagn að verðmatinu?

Markit, sem er m.a. í eigu Citigroup og UBS, segir að vísitölurnar þeirra eigi að nota sem tæki til að greina stefnu skuldatryggingamarkaða, en ekki endilega til að meta undirliggjandi eignir.

„ABX-vísitalan hefur aukið gagnsæi á markaðnum,“ segir Kevin Gould hjá Markit í New York. „Án hennar hefði fjöldi markaðsaðila verið grunlaus um ástandið á eignunum sem voru að baki.“

Fyrir fimm árum síðan sagði Alan Greenspan að aukin notkun afleiða og tengdra mælitækja væri lykilatriði til að stýra áhættu og auðvelda fjármálastofnunum að ná sér á strik ef svo bæri undir. Þessi markaður er nú harla ólíkur því sem var fyrir rúmum áratug síðan, fjárfestar og miðlarar kaupa nú allt eins skuldatryggingar á við skuldabréf. Markit hefur fengið beiðni frá stórum samtökum lánasjóða, Commercial Mortgage Securities Association, um upplýsingar um viðskipti byggð á CMBX-vísitölum til að reyna að meta gagnsemi verðmatsins sem hún gefur til kynna. Spurningin snýst sem sé um hver raunveruleg tengsl skuldatryggingavísitalna eru við hvers konar eignir, eða hvort þau séu yfirhöfuð nokkur, eins og Jacques Aigrain heldur fram.